Erlent

Segir Svíþjóðardemókrata í oddastöðu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Það kemur í ljós í kvöld hvernig flokkarnir skipta með sér þingsætum í Svíþjóð.
Það kemur í ljós í kvöld hvernig flokkarnir skipta með sér þingsætum í Svíþjóð. Vísir/Elín Margrét
Svíþjóðardemókratar eru í oddastöðu, þrátt fyrir að vera ekki líklegir til að sitja í ríkisstjórn, að sögn stjórnmálafræðings við háskólann í Malmö. Nýtt pólitískt landslag blasir við í Svíþjóð í framhaldi af þingkosningunum í dag en búist er við góðri kjörsókn og spennandi kosningum.

Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við háskólann í Malmö, segir framgang Svíþjóðardemókrata hafa verið einkennandi fyrir kosningabaráttuna að þessu sinni. Aðrir flokkar hafi jafnvel reynt að taka upp svipaða orðræðu og Svíþjóðardemókratar í málefnum flóttamanna til að reyna að veiða fylgi til baka.

„Það hefur ekki gengið eftir því að bæði jafnaðarmenn, með forsætisráðherrann Stefan Löfven í fararbroddi, og hófsamir hægrimenn, sem að eru venjulega næst stærsti flokkurinn hérna í Svíþjóð, eru í sögulegu lágmarki fylgislega séð og það lítur út fyrir að þeir fái mun minna upp úr kjörkössunum heldur en í kosningunum 2014,“ segir Gunnhildur.







Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö.Ljósmynd/aðsend
Allt stefnir því í spennandi kosningar en samkvæmt skoðanakönnunum er mjög mjótt á munum og munar aðeins um einu til 1-2% á fylgi blokkanna tveggja, annars vegar ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka og borgaralegu flokkanna fjögurra í stjórnarandstöðu hins vegar. Erfitt gæti verið að mynda ríkisstjórn.

Fyrstu tölur berast snemma

„Það sem er athyglisvert er að Svíþjóðardemókratarnir eru orðnir það stórir að þeir eru orðnir næst stærsti flokkurinn hérna í Svíþjóð samkvæmt könnunum og þeir eru þá í fyrsta lagi í oddastöðu því að þeir tilheyra hvorugri blokkinni og við getum sagt að þeir eru orðnir það stórir að þeir eru eigin blokk í raun og veru þannig að pólitíska landslagið í Svíþjóð breytist talsvert með þessum kosningum í ár,“ útskýrir Gunnhildur.

Ekki sé þó líklegt að Svíþjóðardemókratarnir setjist í ríkisstjórn en þeir geta verið áhrifamiklir á þinginu. Hinir flokkarnir munu ekki komast hjá því að vinna með þeim þar sem hefð er fyrir minnihlutastjórnum í Svíþjóð en samþykkt fjárlaga í nóvember verður fyrsta stóra verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Þá hafa Svíþjóðardemókratar einnig látið til sín taka á sveitarstjórnastiginu þar sem þeir hafa aukið umsvif sín en einnig er kosið til sveitarstjórna í dag.

Kjörstaðir loka klukkan átta í kvöld eða klukkan sex að íslenskum tíma. Búast má við að fyrstu tölur berist um svipað leiti eða jafnvel fyrr. „Almennt er kjörsókn mjög góð hérna í Svíþjóð og hún verður það alveg örugglega í ár. Það er mikil pólitísk gerjun og það er mikill aktívismi og við getum sagt að stór hluti kjósenda heldur niðri í sér andanum og bíður eftir úrslitunum,“ segir Gunnhildur. 

 


Tengdar fréttir

Svíar ganga til kosninga

Úrslitin gætu orðið óvænt því um 20% Svía eiga eftir að gera upp hug sinn.

Óvissan allsráðandi fyrir kosningarnar

Landslagið í sænskum stjórnmálum er gjörbreytt eftir stökk Svíþjóðardemókrata. Þrír flokkar leiða kapphlaupið um að verða stærsti flokkur landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×