Innlent

Allt gert til að koma til móts við nágranna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Útihátíðin Októberfest var haldin í Vatnsmýrinni um helgina. Íbúar Vesturbæjar og nágrennis hafa kvartað undan hávaða vegna hátíðarinnar en forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands segir að allt hafi verið gert til að koma til móts við nágranna og vill hún halda hátíðina á sama svæði að ári.

„Hátíðin fór mjög vel fram um helgina. Hún hefur verið haldin í 15 ár og var ég að heyra frá öryggisgæslunni sem sagði að þetta hafi verið friðsamlegasta hátíðin frá upphafi. Við erum mjög ánægð með það. Það eru engin lögreglumál inni á borði hjá okkur og það skemmtu sér allir fallega,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Þá segir Elísabet að mikið skipulag hafi verið á hátíðinni en forsvarsmenn hennar mældu hávaða á svæðum í kringum hátíðina og segir hún að hávaði hafi verið innan löglegra marka.

„Við höfum gert allar ráðstafanir sem við gátum gert til að beina hávaðanum frá íbúðarbyggð. Það var mikið skipulag í kringum þetta og fengum við helstu fagaðila með okkur í það. En svo ráðum við ekki við vindáttina, Við reyndum að draga úr hávaðanum síðustu kvöldin og styttum við dagskránna. En við munum að sjálfsögðu bregðast við öllum athugasemdum sem koma til okkar því við viljum halda hátíðina í sátt og samlyndi við sem flesta,“ segir Elísabet.

Kristinn Gauti Gunnarsson
Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands segir að það hafi borist í tal að hátíðin verði færð innanhúss, en sjálf vill hún að hátíðin verði haldin í Vatnsmýrinni að ári.

„Það er ómögulegt að segja til um það hvort hún verði haldin hér á næsta ári. Ég persónulega myndi vilja halda hana á sama stað að ári og við myndum þá skipuleggja allt enn betur. Það er eitthvað sem við þurfum að ræða. Við höfum verið í góðu samstarfi við lögregluna, slökkvuliðið, borgina, háskólann og nágranna. Við löbbuðum í heimahús hér í kring með miða og karmellur til að vara þá við mögulegum hávaða. Ef það eru einhverjir sem vilja hafa samband við mig vegna hátíðarinnar þá er það sjálfsagt. Ég vona bara að háskólanemar fá að halda áfram að skemmta sér fallega,“ sagði Elísabet.


Tengdar fréttir

Skiptar skoðanir Vesturbæinga á Októberfest: Stúdentaráð segist gera allt sem það getur til þess að takmarka hávaða

Nokkurrar óánægju hefur gætt í Facebook-hópnum Vesturbærinn, sem er hópur ætlaður íbúum Vesturbæjarins og vettvangur fyrir ýmiskonar umræðu um hann, vegna tónlistarhátíðarinnar Októberfest, sem haldin er á vegum Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þykir sumum íbúum í grennd við Vatnsmýrina, hvar hátíðin er haldin, hávaðinn frá viðburðinum of mikill, auk þess sem hann standi yfir of lengi inn í nóttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×