Viðskipti innlent

Laxeldi Arnarlax í Tálknafirði synjað um alþjóðlega gæðavottun

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Laxeldi í Arnarfirði.
Laxeldi í Arnarfirði. ERLENDUR GÍSLASON
Neikvæð staða lífríkis á botni Tálknafjarðar, tíðni laxadauða í kvíum og umfang lúsa­vandans eru helstu ástæður þess að sú kynslóð sem nú er alin í laxeldi Arnarlax í Tálknafirði fær ekki ASC-vottun. Um er að ræða vottun sem fylgir ítarlegum stöðlum um sjálfbæra samfélags- og umhverfisvæna sjávarvöruframleiðslu.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í síðasta mánuði gerði vottunaraðilinn alvarlegar athugasemdir við fjölmargt í framleiðsluferli eldisins sem uppfyllir ekki skilyrði vottunarinnar. Erlendir kaupendur eldislaxins gera margir strangar gæðakröfur og var umsókn Arnarlax um vottun hluti uppbyggingar gæðakerfis hjá fyrirtækinu.

Niðurstaða úttektar vottunaraðilans var birt 27. ágúst síðastliðinn. Af henni að dæma hefur Arnarlax bætt úr ýmsu sem gerðar voru athugasemdir við í ferlinu. Aðgerðir fyrirtækisins duga hins vegar ekki til og eldið fær ekki vottun, að þessu sinni. Vísað er til stöðu lífríkis í nágrenni eldisins en mælingar á súrefnisástandi botnsjávar og fjölbreytileika og magni botndýra í nágrenni eldisins, ná ekki viðmiðum þeirra staðla sem stuðst er við. Þá er tíðni óútskýrðs laxadauða of há hjá Arnarlaxi til að uppfylla skilyrði vottunaraðilans eða 22 prósent. Að lokum fer umfang lúsavandans einnig upp fyrir leyfilegt viðmið vottunar og áhrif þess á villta laxastofninn hafa ekki verið nægilega rannsökuð.

Í niðurstöðunni er þó, með vísan til viðbragða og úrbóta fyrirtækisins í vottunarferlinu, mælt með Arnarlaxi sem umsækjanda um vottun í framtíðinni.

„Við erum fullviss um að næsta kynslóð í Laugardal fái vottun,“ segir Þóra Dögg Jörundsdóttir, gæðastjóri Arnarlax, og segir synjun um vottun á þessu svæði ekki hafa áhrif á fyrirhugaðar umsóknir um vottun fyrir önnur eldissvæði.

„Þó fiskurinn í Laugardal standist ekki vottun, það er framleiðslan sem þar er núna, þá er vottunaraðili að segja í þessari samantekt að ferlar og rekstur Arnarlax séu í samræmi við kröfur í ASC-staðlinum,“ segir Þóra. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×