Lífið

Steinunn Ólína minnist Stefáns Karls í viðtali við People

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stefán Karl og Steinunn Ólína voru gift í 16 ár.
Stefán Karl og Steinunn Ólína voru gift í 16 ár. vísir/valgarður
Óhætt er að segja að Stefán Karl Stefánsson leikari hafi snert hjörtu þjóðarinnar undanfarin ár. Stefán Karl féll frá þann 21. ágúst en þessi 43 ára leikari hafði barist við illvígt gallgangakrabbamein í tvö ár.

Stefán lét eftir sig eiginkonu og fjögur börn en eiginkona hans Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir segir í samtali við People  að fráfall Stefáns hafi verið gríðarlegt áfall fyrir fjölskylduna.

„Stefán var mjög skapandi og örlát manneskja með fullt af hugmyndum,“ segir Steinunn við bandaríska tímaritið.

„Stefán var greindur með krabbamein árið 2016 og lifði í 23 mánuði eftir greiningu. Á þessum tíma fór hann í flóknar aðgerðir og  lyfja- og geislameðferðir. Ég vildi óska að það væri til lækning eða í það minnsta aðferðir sem gefa fólki meiri von. Ég er fullviss um að hægt sé að ná mun meiri árangri í þessum málaflokki,“ segir Steinunn og hvetur fólk til að styðja við bakið á söfnunarsjóði í baráttunni gegn gallgangakrabbameini.

Elskaði lífið

„Þetta er mjög sjaldgjæf tegund af krabbameini og greinist fólk oftast þegar það er komið á lokastig. Það er sorglegt að segja frá því að flest tilfelli enda með því að sjúklingurinn fellur frá. Með fleiri og ítarlegri rannsóknum gætum við náð að greina þessi tilfelli mun fyrr,“ segir Steinunn sem giftist Stefáni árið 2002.



„Hann náði að njóta lífsins eftir að hann var greindur með meinið og ferðaðist mikið með fjölskyldunni. Hann skilur mig eftir með fullt af verkefnum sem ég mun glöð ráðast í.“

Eitt af þessum verkefnum er að stofna leiklistarskóla fyrir börn. Skólinn mun bera nafnið Stefan Karl Academy and Center for the Performing Arts og hefur hann göngu sína í Sviss á  næsta ári.

„Stefán vildi aldrei að fjölskylda og vinir myndu syrgja hann í langan tíma. Hann elskaði lífið og vildi vera minnst sem manni sem gaf börnum gleði, en börn eru mikilvægustu áhorfendurnir að hans mati.“

 

 

Skjáskot af síðu People.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×