Innlent

„Við erum ekki sáttar“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðlaug M. Sigurðardóttir er í samninganefnd ljósmæðra.
Guðlaug M. Sigurðardóttir er í samninganefnd ljósmæðra. Mynd/Skjáskot

„Nei, við erum ekki sáttar,“ segir Guðlaug M. Sigurðardóttir sem situr í samninganefnd Ljósmæðrafélags Íslands um niðurstöðu gerðardóms í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins.

Niðurstaðan var kynnt nú síðdegis og felur meðal í sér að meta eigi kandídatsgráðu ljósmæðra til jafns við nám hjúkrunarfræðings með tveggja ára sérnám. Þannig skuli ljósmóðir í klínísku starfi raðast tveimur launaflokkum ofar en hjúkrunarfræðingur sem er ekki með sérmenntun.

Þá á greiða á ljósmóðurnemum á síðasta námsári laun í 25 vikur. Allar stofnanir sem ljósmæður starfa á eiga að hafa starfsþróunarkerfi og stofna á stýrihóp til að efla starfsþróun en gerðardómur setti fram ýmsar ábendingar og fyrirmæli, í sjö liðum.

Rætt var við Guðlaugu í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld en horfa má á viðtalið hér fyrir neðan.

„Við óskuðum eftir hækkun á grunnlaunum og við fengum ekki hækkun á grunnlaunum. Það sem við fengum eru ákveðnar tillögur í sjö liðum en þetta gefur okkur enga hækkun hér og nú,“ sagði Guðlaug aðspurð í hverju óánægja ljósmæðra myndi felast.

Segir að það verði óánægja með niðurstöðuna

Bætti Guðlaug við að ljósmæður væru nýkomnar með niðurstöðu gerðardóms í hendur og ættu eftir að fara betur í kjölinn á honum. Búið væri að senda hann á félagsmenn í Ljósmæðrafélaginu og boðað yrði til fundar á morgun þar sem niðurstaðan yrði kynnt betur fyrir félagsmönnum. Guðlaug á ekki von á því að ánægja verði með niðurstöðu gerðardóms.

Ljósmæður mótmæltu kröftuglega á meðan á samningaviðræðum stóð. Vísir/Elín

„Mitt fyrsta mat er að það verður óánægja með þetta en eins og ég segi við eigum eftir að skoða þetta. Ég er ekki að sjá að þetta gefi okkur neitt, allavega ekki núna en það eru ákveðnar tillögur um hvað er hægt að gera, en ekkert sem gefur okkur neitt akkúrat núna,“ segir Guðlaug.

Hátt í fimmtíu ljósmæður sögðu upp störfum á meðan kjaradeilunni stóð en um 30-40 þeirra hafa snúið aftur til starfa að sögn Guðlaugar.

En hún von á því að þær sem enn hafi ekki snúið aftur muni gera það vegna niðurstöðu gerðardóms?

„Þetta gefur þeim enga ástæðu til þess að snúa til baka,“ segir Guðlaug.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.