Innlent

Hundruð milljóna í veikindakostnað skólastarfsfólks

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar

Kostnaður borgarinnar vegna langtímaveikinda starfsmanna á leikskólum, í grunnskólum og á frístundaheimilum er ríflega 350 milljónir króna á hálfu ári. Borgarfulltrúi sósíalistaflokksins vakti athygli á þessu á fundi borgarráðs þar sem árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins var afgreiddur.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins gagnrýnir hækkun á leiguverði félagsbústaða og lélegan aðbúnað láglaunafólks borgarinnar. Það var rætt á fundi þar sem árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins var afgreiddur.

Rekstur A hluta borgarinnar er jákvæður um tæplega fjóra milljarða og segir borgarstjóri í tilkynningu að verið sé að sækja fram í borginni en einnig skila sterkri rekstrarniðurstöðu.

Borgarfulltrúi sósíalistaflokksins segir að einmitt í ljósi þessa skilji hún ekki tillögu um að hækka leiguverð enn frekar hjá Félagsbústöðum. Leiguverðið hafi nú þegar hækkað um fimm prósent og lagt sé til tvö prósent í viðbót.

„Þetta eru mjög viðkvæmir hópar. Þetta eru einstaklingar á örorku, lífeyrisþegar, fátækt fólk, einstæðir foreldrar. Fólk sem getur ekki mætt auka fjárútlátum. Þótt þetta séu nokkrir þúsund kallar þá er það gríðarlega mikill peningur fyrir fátækt fólk,“ segir Sanna magdalena.

Hún segir einnig sláandi að sjá 357 milljón króna útgjöld vegna langtímaveikinda starfsfólks í grunnskólum, leikskólum og á frístundaheimilum, og það aðeins á sex mánaða tímabili.

„Þó það standi ekki hverjar ástæðurnar séu þá er líklegt að þetta sé vegna álags sem fólk er að mæta. Það eru lág laun mikið álag, mannekla.“

Sanna segir að hækka þurfi launin og hlúa betur að fólki.

„Náttúrulega stytting vinnuvikunnar, það er gríðarlega mikilvægt, og þetta er jafnvel ekki eina starfið sem fólk er í, mætir í aðra vinnu eftir fullan vinnudag þannig að þetta tengist líka húsnæðismarkaðnum og sérstaklega ef öll launin fara í leigu þannig að þetta er samspil margra þátt.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.