Fótbolti

Vonast að sjálfsögðu eftir því að spila

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Svava Rós Guðmundsdóttir
Svava Rós Guðmundsdóttir fréttablaðið
Svava Rós Guðmundsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins og Röa í Noregi, er skiljanlega spennt fyrir verkefnum landsliðsins á næstu dögum. Fram undan er einn stærsti leikur íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi þegar þær mæta áttföldum Evrópumeisturum og tvöföldum heimsmeisturum Þýskalands en með sigri kemst kvennalandsliðið í fyrsta sinn í lokakeppni HM

„Stemmingin er mjög góð, við erum allar mjög spenntar að takast á við þetta verkefni og við stefnum allar í sömu átt. Við förum í leikinn til að vinna hann og taka þrjú stig en við sjáum hvað verður,“ sagði Svava, aðspurð hvort það myndi trufla stelpurnar að jafntefli gæti dugað í aðdraganda leiksins.

Þær munu fara vel yfir leikinn enda eru þær búnar að vera með augastað á þessum leik í langan tíma.

„Þetta er búið að vera löng bið sem hefur þó liðið ágætlega hratt sem betur fer. Við vorum farin að undirbúa þennan leik fyrir síðasta leikinn (innsk. gegn Slóveníu í sömu undankeppni) og við erum vel undir­búin. Við vitum að þær eru með gríðarlega sterkt lið,“ sagði Svava en búast má við að Ísland verjist af krafti.

„Þetta mun krefjast einbeitingar, við vitum að við þurfum að verjast mikið og að við þurfum að nýta okkur styrkleika okkar. Leikurinn í Þýskalandi er gott fordæmi, þar gekk leikplanið vel upp og við fórum heim með þrjú stig.“

Svava hefur verið iðin fyrir framan markið í undanförnum leikjum hjá félagi sínu í Noregi og vonaðist að sjálfsögðu eftir því að fá tækifærið á laugardaginn.

„Það er undir mér komið að gera tilkall til sætis, ég vonast auðvitað eftir því að fá að spila á laugardaginn eins og allir leikmennirnir en það verður að koma í ljós,“ sagði Svava sem hefur skorað í fimm af síðustu sex leikjum fyrir Röa.

„Það hefur gengið vel í Noregi, ég er að finna mig vel í fremstu víglínu fyrir framan markið. Ég hef yfirleitt verið á köntunum að leggja upp mörkin en þetta er annar möguleiki sem ég get boðið upp á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×