Lífið

Skemmtilegasti áratugur lífsins er framundan

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sigrún er leiðsögumaður og vinnur einnig við að velja leikara í kvikmyndir, sjónvarp og auglýsingar
Sigrún er leiðsögumaður og vinnur einnig við að velja leikara í kvikmyndir, sjónvarp og auglýsingar Fréttablaðið/Ernir
„Það er óþyrmileg áminning um að maður sé að verða aldurhniginn að fá svona símtal,“ segir Sigrún Sól Ólafsdóttir leikkona, þegar ég slæ á þráðinn og falast eftir viðtali vegna fimmtugsafmælisins í dag. „Nei, ég er bara að grínast,“ bætir hún svo við hlæjandi.

„Mér finnast þetta skemmtileg tímamót og tek þeim bara fagnandi. Ég er að ferðast um með fólki frá Bandaríkjunum og konurnar í hópnum keppast við að sannfæra mig um að tímabilið milli 50 og 60 sé skemmtilegasti áratugur lífsins. Ég tek mark á þeim þannig að ég hlakka bara til.“

Sigrún kveðst vera stödd í Efstadal í Bláskógabyggð. Hún er sem sagt leiðsögumaður meðal annars.

„Ég er með marga hatta,“ segir hún. „Er leiðsögumaður og svo vinn ég við leikaraval í kvikmyndir, sjónvarp og auglýsingar, er með eigið fyrirtæki sem heitir Iceland Casting og held námskeið fyrir leikara líka sem vilja endurmennta sig og halda áfram að byggja ofan á þekkinguna.“

Þannig að þú hefur nóg að gera.

„Já, ég er mikið á faraldsfæti og það er mjög gaman. Er aðallega að ferðast með Bandaríkjamenn og Þjóðverja hér um landið og svo fer ég líka með þá og aðra hópa til Grænlands og Íslendinga til Þýskalands.“

Ertu fjölskyldumanneskja?

„Já, ég er einstæð móðir með þrjá stráka, sá elsti að verða tvítugur. Ég er að koma í bæinn á afmælinu og þeir ætla að fagna með mér.“

Heldurðu að þeir baki skúffuköku?



„Nei, ég held að við förum út að borða. En fyrst ætla vinir mínir að fara með mig að Kleifarvatni að synda. Það verður spes. Ég hef ánetjast sjósundinu á þessu ári og nú er komið að ferskvatnssundi í náttúrunni á fimmtugsafmælinu. Svo er Afríkuferð í tilefni þess fram undan í vetur. Tímasetning er ekki alveg komin en það er Tansanía sem er í sigti.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×