Skoðun
Ásthildur Þórsdóttir

Í alvöru?!

Ásthildur Þórsdóttir skrifar

Það gerist æ oftar að mér fallast hendur yfir skeytingarleysi og heimsku ráðamanna þegar kemur að kjörum venjulegs fólks og það gerðist tvisvar á tveimur dögum í síðustu viku, þannig að ég ákvað að svara hvoru tveggja í einni grein.

Í fyrra skiptið var það Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar en í það seinna Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Ég ætla að byrja á að svara Ágústi þar sem svarið til hans er styttra, en svo kemur að Katrínu.

Hvaða erindi átt þú á Alþingi Ágúst?

Sæll Ágúst,

Í grein sem birtist eftir þig í síðustu viku talar þú um verðtrygginguna og skýtur á þá sem vilja hana í burtu og segir „…að hagmunasamtök kjósi að hunsa hið augljósa, sem sé krónuvandinn.“ Það sama á við um stöðugleikann, hann kemur að þínu mati ekki nema með nýjum gjaldmiðli.

Þessar lausnir þínar koma ekki mikið á óvart, þetta eru EINU lausnirnar sem þú og þinn flokkur hafið í ÖLLUM málum.

Ég ætla ekkert að ræða hvort nýr gjaldmiðill yrði til bóta eða hvort hagsmunum okkar væri betur borgið innan ESB, málið er nefnilega það Ágúst, að við ERUM hvorki með annan gjaldmiðil né gengin í ESB. Þau ferli myndu taka nokkur ár héðan í frá og ekki gera neitt fyrir stöðuna eins og hún er í dag.

Ég spyr þig því, er planið að láta öll vandamál reka á reiðanum þangað til ástandið verður svo slæmt að þjóðin hleypur öskrandi í faðm ESB af því ekkert geti verið verra en það sem er?

Var það kannski hugmyndin með öllum þeim skelfilegu aðgerðum sem Ríkisstjórn Jóhönnu fór í eftir hrun, að láta þjóðinni blæða svo svakalega að ESB yrði eini plásturinn? Fyrri hluti þeirrar áætlunar tókst, þjóðinni hefur svo sannarlega blætt og blæðir enn, en síðari hlutinn mistókst herfilega.

Svo ég spyr, hvað ætlar þú og þinn flokkur að gera í þessum málum í dag? Hvernig ætlið þið að hjálpa fólkinu sem ennþá situr í skelfilegri súpu YKKAR aðgerða, ÞANGAÐ TIL við erum þá komin í ESB – ef það á þá yfirleitt eftir að gerast??

Þingmaður eða flokkur sem hefur aldrei aðrar lausnir á neinum málum nema „að hlaupa heim til mömmu“ hefur ekkert á Alþingi að gera og ætti að láta stóla sína eftir þeim sem treysta sér til að horfast í augu við stöðuna eins og hún ER í stað þess að sitja sem fastast engum til gagns og frekar til ógagns og tala um einhverja draumsýn í fjarlægri framtíð sem lausn.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra til þín í bili, en hvet þig til að lesa vel „bréfið“ til Katrínar, því þið eruð samsek í ansi mörgum málum.


Í hvaða heimi lifir þú Katrín?

Sæl Katrín,

Ég ætla mér að tala mannamál hérna því þolinmæði mín er þrotin eftir 10 ára baráttu og mér er algjörlega nóg boðið. Þyki þér það óþægilegt verður bara að hafa það. Ég get lofað þér því að óþægindi þín við það að heyra sannleikann eru EKKERT miðað við hörmungarnar sem þú hefur bæði tekið þátt í að skapa og leggur nú með aðgerðarleysi og hunsun, blessun þína yfir.

Í síðustu viku skrifaðir þú grein og fyrirsögn lokakafla hennar er: „Gerum góða stöðu betri fyrir alla“, ég ætla ekkert að fjalla um kaldhæðni þessara orða en fara beint í upphafsorð kaflans.

„Þegar lykiltölur eru skoðaðar fyrir Ísland má ljóst vera að ólíkt mörgum nágrannalöndum hafa Íslendingar unnið mjög vel úr hruninu og flestar kennitölur stefna í rétta átt.“

Í alvöru Katrín?! Hvernig geturðu haldið því fram að við höfum „unnið mjög vel úr hruninu“?

Í sömu vikunni komu loksins staðfestar tölur yfir fjölda þeirra sem misst hafa heimili sín í nauðungarsölum eftir hrun. Heimilin eru 10.000! Auk þess sem árangurslaus fjárnám hafa verið 117.000 frá hruni.

Hagsmunasamtök heimilanna sendu frá sér yfirlýsingu vegna þessa og hana má lesa hérna þér til frekari fróðleiks.

Ertu sátt við þennan árangur Katrín?
Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum sankað að okkur ógrynni af upplýsingum um aðgerðir stjórnvalda eftir hrun, og allir þræðir sem við höfum fundið liggja beint til fyrrverandi formanns þíns Steingríms J. Sigfússonar. Að sjálfsögðu þurftu fleiri að koma að málum en hann. Eins og t.d. þáverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon, Seðlabankastjóri Már Guðmundsson, Gunnar Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og ekki má gleyma ófáum dómurum bæði í Héraðsdómi og Hæstarétti.

En engu að síður liggja allir þræðir til Steingríms J. og hann, sem er „höfundur og fullkomnari“ þessa alls, neitar að svara. Hann sem er kjörin fulltrúi almennings, snýr sér út í horn eins og fýldur krakki og segist ekki taka þátt í „samræðum á þessum grunni“ eins og hann orðaði það svo snyrtilega í pósti til mín í vor.

Á hvaða grunni var það? Jú, grunni raka þar sem hann var krafinn um svör.

Þessi maður er forseti Alþingis og handhafi forsetavalds! Hvernig getur hann neitað að svara spurningum um embættisfærslur sínar þegar augljóst er að þær hafa valdið ómældum skaða fyrir þúsundir?!

Svo ég þurfi ekki að endurtaka „samskipti“ okkar Steingríms og til að þú getir glöggvað þig á málunum þá eru greinarnar sem ég skrifaði hér:

- 18. apríl 2018: Steingrímur stoltur en Katrín felur sig
- 3. maí 2018:  Bjargvættur eða brennuvargur?
- 10. maí 2018: Forseti Alþingis á flótta

Hvað hefur þú gert Katrín?
En hver var þinn þáttur í þessu öllu? Þú varst varaformaður VG og ráðherra í Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á meðan Steingrímur stóð í þessu makki sínu.

Varst þú höfð með í ráðum eða var þér haldið fyrir utan þetta? Eigum við að trúa því að þú og aðrir þingmenn VG hafið ekki haft hugmynd um hvað Steingrímur var að gera?

Gefum okkur að svo sé, en af hverju eruð þið þá að halda verndarhendi yfir honum? Af hverju vill VG ekki að fram fari rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun?

Í hvert sinn sem ég eða aðrir minnast á aðgerðir stjórnvalda eftir hrun, hefur VG kórinn upp raust sína um „vonda Sjálfstæðisflokkinn sem seldi bankanna“ og að „VG hafi tekið við hræðilegri stöðu“ og, það besta af öllu, að Jóhanna og Steingrímur hafi verið í erfiðum „björgunaraðgerðum“.

Tvennt það fyrst talda er alveg rétt, bankarnir voru seldir og staðan var hræðileg, en það er líka staðreynd að hið svokallaða „björgunarfólk“ var verra en nokkrir brennuvargar, því það mætti með olíu sem það hellti á eldinn.

Þessi ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hófst nefnilega handa við að bjarga fjármálafyrirtækjunum, brennuvörgunum sjálfum, með því að hella olíu á eldinn. Síðan buðu þau fólkinu skjól undan eldinum í Skjaldborginni sem þau voru að byggja, og nauðugt viljugt flúði fólk þangað og þeir sem ekki vildu, voru hreinlega þvingaðir inn.

Þessi skjaldborg var og er ansi rammgyrt og það er enginn leið út úr henni. Þar inni er fólkið fast og á sér engrar undankomu auðið undan partýinu á virkisveggjunum.

Bankamönnum var nefnilega boðið í nýtt partý á virkisveggjum Skjaldborgarinnar og til að auka fjörið og spennuna afhentu Steingrímur og Jóhanna þeim líka skotvopn af ýmsu tagi, og þar hafa þeir síðan dundað sér við að salla niður heimili landsins, sem hafa ekkert skjól að hlaupa í.

Dómarar eiga sitt pláss á á virkisvegnum ásamt sýslumönnum, og stundum gerist það að einhver ákveður að berjast og leitar þá ásjár þeirra. En þeir vita vel að hlutverk þeirra er að viðhalda partýinu, þannig að að þeir sparka viðkomandi yfirleitt beint til baka í gildru Skjaldborgarinnar. Enda nauðsynlegt að sýna fólki sem eitthvað er að vilja upp á dekk, með einhverju röfli um lög og réttindi, hver völdin hefur, þannig að það skilji strax að mótstaða sé ekki til neins, við ofurefli sé að etja og því best fyrir það að gefast upp og sætta sig við orðinn hlut.

Þú tókst þátt í að byggja þessa hræðilegu skjaldborg Katrín og, það sem verra er, þú viðheldur henni ennþá, 10 árum síðar, með aðgerðarleysi þínu og afskiptaleysi.

Hvað hefur þú gert í þessum málum síðan þú varðst forsætisráðherra Katrín?

Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna fengum fund með þér í byrjun janúar á þessu ári, en síðan hefurðu algjörlega hunsað okkur og málefni heimilanna.

Þegar bent er á og færð rök og sannanir fyrir að verið sé að brjóta mannréttindi á þúsundum, er þá ekki ástæða til að bregðast við? Eða hefurðu verið of upptekin við mikilvægari mál?

Hvað er annars mikilvægara en að hjálpa tugþúsundum sem hafa verið rænd heimilum sínum?!

Var það kannski vinnan við umsókn okkar í Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna? Finnst þér við yfirleitt eiga erindi þangað? Ætlum við að kenna þeim hvernig hægt sé að brjóta mannréttindi á fólki ef bara löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið vinni saman, ásamt nokkrum útvöldum? Hvað ætlarðu að segja „þeim“ um mannréttindi í þínu eigin landi? Eða skipta þau engu máli á meðan glansmyndin fyrir útlönd er fín og falleg?

VG er einn spilltasti flokkur í Evrópu
Foringjahollusta Sjálfstæðisflokksins  hefur oft verið gagnrýnd en hún blikknar við hliðina á foringjahollustu Vinstri grænna. Foringjahollusta Vinstri grænna nær greinilega yfir gröf og dauða, því frekar láta þeir  murka lífið úr heimilum landsins en krefja foringja sinn svara.

Sjálfstæðisflokkurinn á alveg sína sök, og Framsóknarflokkurinn líka, á því sem gerðist fyrir hrun, ásamt náttúrulega Samfylkingunni sem að auki ber fulla ábyrgð með ykkur á þeim aðgerðum sem hér um ræðir.

En ef þið í VG ætlið ykkur að vera ábyrgur og marktækur stjórnmálaflokkur getið þið ekki alltaf sagt „það var honum að kenna“. Þið verðið einhvern tíman að taka ábyrgð á ykkar eigin gjörðum.

Því þrátt fyrir allt það sem „hinir“ gerðu eða gerðu ekki á árunum fyrir hrun, þá berið þið, ásamt Samfylkingunni, fulla ábyrgð á atlögunni gegn heimilum landsins.

Þær aðgerðir voru ónauðsynlegar og ljótar – allt að því illar, auk þess að vera kol-ólöglegar og brjóta alvarlega á lög- og stjórnarskrárvörðum réttindum manna, kvenna og barna.

Það er vegna þessara aðgerða sem heimilum landsins hefur blætt og til þessara aðgerða má með beinum og óbeinum hætti rekja svo mörg vandamálanna sem við stöndum frammi fyrir í dag, eins og t.d. aukna fátækt, húsnæðisskortinn, hátt leiguverð og ofurvald og kúgun leigufélaga, svo fátt eitt sé nefnt.

Ég held að enginn annar flokkur í Evrópu hafi valdið jafn mörgum jafn skelfilegum skaða og VG og þar sem þið takið hagsmuni og orðspor ykkar (fyrrverandi) foringja fram yfir hagsmuni almennings sem þið hafið þó svarið að vinna fyrir, stend ég við þá fullyrðingu mína að VG sé einn allra spilltasti stjórnamálaflokkur Evrópu.

(Samfylkinginn er að stærstum hluta undir sömu sökina seld, því flest það sem hér hefur verið sagt á einnig við þann flokk – það þarf bara að skipta út foringjanöfnum).

Sumir eru jafnari en aðrir
Að þú sem forsætisráðherra haldir þeirri mýtu fram að við höfum unnið vel úr eftirmálum hrunsins á meðan fólk er rekið af heimilum sínum í stórum stíl og fjöldi fólks á hvorki til hnífs og skeiðar eða í nein hús að venda, er einfaldlega sorglegt.

„Velmegunin“ sem þú talar um er byggð á blóði þessa fólks. Fólki sem var fórnað af stjórnmálamönnum „til heiðurs“ bankamönnunum og hefur verið látið taka á sig refsinguna fyrir afbrot þeirra, á meðan þeir halda áfram að græða á afbrotum sínum.

Plantekrueigendunum í Suðurríkjum Bandaríkjanna fannst einu sinni allt í lagi að ríkidæmi þeirra byggðist á blóði þræla. Ég hefði haldið að við ættum að vera komin lengra en það að finnast það ásættanlegt, hvað þá hreykja sér af því.

Velmegun sem byggir á því að halda öðrum niðri, er ekki velmegum heldur kúgun.

Velmegun sem hindrar fólk í að leita réttlætis í baráttu við ofurafl vegna fjárskorts brýtur gróflega jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Velmegun sem byggir á spillingu dómstóla sem standa með ofuraflinu er spilling af verstu gerð sem verður að uppræta.

Og það er ekki hægt að hreykja sér af velmegun í landi þar sem húsnæðisskortur er og bankamenn geta fleygt fólki á götuna fyrir litlar sem engar sakir og afhent svo leigufélögum íbúðirnar til að leigja þeim aftur á uppsprengdu verði.

Það getur vel verið að hagtölur segi að hér sé allt í lukkunnar velstandi en það er eingöngu vegna þess að þeir sem fá að vera með í partýinu á virkisveggnum, hafa það alveg svakalega gott og skekkja myndina. Það er alveg eins og að segja að maðurinn sem er með annan fótinn í ísvatni en hinn í brennandi hver, hafa það að meðaltali fínt.

Þinn flokkur hefur valdið þúsundum skelfilegum skaða Katrín, þú þarft að taka ákvörðun um hvort skipti þig meira máli að hylma yfir með fólkinu sem stóð að þeim skaða eða velferð fórnarlamba þeirra. Þau eiga heimtingu á rannsókn og svörum.

Kannski þú ættir að hlusta á konuna sem sagði þetta í ræðustól Alþingis fyrir tæpu ári síðan. Mikið væri gaman ef hún kæmist til áhrifa, veit einhver hvar hún er?

„Ranglæti hvar sem það finnst í samfélaginu er ógn við réttlætið þess vegna megum við aldrei slaka á í baráttu okkar fyrir réttlátu samfélagi. Að bíða með réttlætið jafngildir því að neita fólki um réttlætið, eins og Martin Luther King orðaði það í frægu bréfi. Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlæti og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni og þá ábyrgð þurfum við öll að axla.“
- Katrín Jakobsdóttir á Alþingi 17. september 2017
 
Ég væri til í að kjósa þessa konu.

Ég krefst þess að gerð verði rannsókn á aðgerðum stjórnvalda í kjölfar hrunsins.

Ég, ásamt þúsundum annarra, hlýt að eiga kröfu á því að vita af hverju ég og fjölskylda mín séum svo lítils virði að það sé talinn „ásættanlegur fórnarkostnaður” að fórna heimili okkar, lífsafkomu og möguleikum, svo bankamenn geti fengið enn stærri bónusa til að leika sér að.

Það er kominn tími til aðgerða Katrín - fyrir hvern og hverja ert þú á Alþingi?

Höfundur er formaður Hagsmunasamtaka heimilannaAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.