Fótbolti

Sara væri til í að stríða liðsfélögum sínum á morgun en bíður með yfirlýsingarnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Freyr Alexandersson og Sara Björk Gunnarsdóttir sátu fyrir svörum.
Freyr Alexandersson og Sara Björk Gunnarsdóttir sátu fyrir svörum. vísir/getty
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, hefði ekkert á móti því að stríða liðsfélögum sínum í Wolfsburg aðeins á morgun þegar að Ísland og Þýskaland mætast í undankeppni HM 2019.

Með sigri tryggir íslenska liðið sér farseðilinn á HM en Þýskaland þarf að fara í umspilið. Með Þýskalandi spila nokkrar vinkonur Söru úr þýska stórveldinu WfL Wolfsburg.

„Það kitlar svolítið. Það myndi vera mjög skemmtilegt. Eftir fyrri leikinn var ekki mikið sagt. Það var hljótt í búningsklefanum. Við skulum bíða með yfirlýsingar samt," sagði Sara en hefur þessi leikur verið mikið ræddur á undirbúningstímabilinu hjá Wolfsburg?

„Við höfum ekki rætt leikinn mikið. Við höfum meira rætt um veðrið og annað svona á léttu nótunum. Við höfum ekki sagt of mikið,“ sagði Sara.

Miklar væntingar voru gerðar til stelpnanna á EM á síðasta ári en ekki gekk það eftir. Telur Sara að pressan og fjölmiðlafárið í kringum það mót hjálpi í þessum stórleik á morgun?

„Það voru miklar kröfur settar á okkur fyrir EM og sjálfar settum við kröfur á okkur sem við stóðum ekki undir. Það var smá sjokk fyrir okkur. Við höfum samt spilað vel í undankeppninni, erum í frábærri stöðu og eigum það skilið,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir.

Textalýsingu blaðamanns Vísis frá fundinum má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Við erum á góðri vegferð

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta getur tryggt sér sæti á HM með sigri á Þýskalandi á morgun. Hallbera Guðný Gísladóttir segir tilhlökkunina í íslenska hópnum fyrir leiknum mikla en veit að verkefnið er ærið.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×