Fótbolti

Sara væri til í að stríða liðsfélögum sínum á morgun en bíður með yfirlýsingarnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Freyr Alexandersson og Sara Björk Gunnarsdóttir sátu fyrir svörum.
Freyr Alexandersson og Sara Björk Gunnarsdóttir sátu fyrir svörum. vísir/getty

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, hefði ekkert á móti því að stríða liðsfélögum sínum í Wolfsburg aðeins á morgun þegar að Ísland og Þýskaland mætast í undankeppni HM 2019.

Með sigri tryggir íslenska liðið sér farseðilinn á HM en Þýskaland þarf að fara í umspilið. Með Þýskalandi spila nokkrar vinkonur Söru úr þýska stórveldinu WfL Wolfsburg.

„Það kitlar svolítið. Það myndi vera mjög skemmtilegt. Eftir fyrri leikinn var ekki mikið sagt. Það var hljótt í búningsklefanum. Við skulum bíða með yfirlýsingar samt," sagði Sara en hefur þessi leikur verið mikið ræddur á undirbúningstímabilinu hjá Wolfsburg?

„Við höfum ekki rætt leikinn mikið. Við höfum meira rætt um veðrið og annað svona á léttu nótunum. Við höfum ekki sagt of mikið,“ sagði Sara.

Miklar væntingar voru gerðar til stelpnanna á EM á síðasta ári en ekki gekk það eftir. Telur Sara að pressan og fjölmiðlafárið í kringum það mót hjálpi í þessum stórleik á morgun?

„Það voru miklar kröfur settar á okkur fyrir EM og sjálfar settum við kröfur á okkur sem við stóðum ekki undir. Það var smá sjokk fyrir okkur. Við höfum samt spilað vel í undankeppninni, erum í frábærri stöðu og eigum það skilið,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir.

Textalýsingu blaðamanns Vísis frá fundinum má sjá hér að neðan.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.