Formúla 1

Alonso prófar Indycar í næstu viku

Kjartan Kjartansson skrifar
Alonso í Indianapolis í fyrra. Hann tók sér frí frá Formúlu 1 til þess að keppa í þessum stærsta kappakstri heims.
Alonso í Indianapolis í fyrra. Hann tók sér frí frá Formúlu 1 til þess að keppa í þessum stærsta kappakstri heims. Vísir/Getty
McLaren-liðið hefur staðfest að tvöfaldi Formúlu 1-meistarinn Fernando Alonso ætli að prófa Indycar-bíl í Bandaríkjunum í næstu viku. Stutt er síðan Alonso tilkynnti um að hann ætlaði að hætta í Formúlu 1 eftir tímabilið og mikið hefur verið rætt um að hann gæti haldið vestur um haf í Indycar-mótaröðina.

Alonso mun prófa núverandi útgáfu Indycar-bíls Andretti Autosport liðsins á Barber-brautinni í Alabama á miðvikudag. Motorsport.com segir að prófunin verði lokuð fjölmiðlum og almenningi.

Ekkert hefur verið staðfest um hvar Alonso ekur á næsta tímabili. Spánverjinn er þó sagður áhugasamur um að sigra í Indy 500-kappakstrinum og fullkomna þar með svonefnda „þrefalda kórónu“ aksturíþrótta: sigur í Indy, Mónakó og Les Mans.

Vangaveltur hafa verið um að Alonso gæti að minnsta kosti keppt í Indy 500-kappakstrinum á næsta ári líkt og hann gerði í fyrra. Hann er þó talinn vilja keppa heilt tímabil vestanhafs til þess að auka möguleika sína á sigri í Indianapolis.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá Indycar-kappaksturinn sem fór fram á Barber-brautinni í apríl.


Tengdar fréttir

Alonso hættir í Formúlu 1

Tvöfaldi heimsmeistarinn Fernando Alonso hefur gefið það út að hann muni hætta þátttöku í Formúlu 1 að keppnistímabilinu loknu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×