Liverpool áfram með fullt hús

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Firmino og Mane voru báðir á skotskónum í dag
Firmino og Mane voru báðir á skotskónum í dag Vísir/Getty
Liverpool er áfram með fullt hús stiga eftir sigur á Leicester í fyrsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Leikurinn byrjaði fjörlega og komst Liverpool í dauða færi strax í upphafi leiks. Roberto Firmino náði ekki nógu góðu skoti á markið og Kasper Schmeichel varði frá honum. Mohamed Salah setti frákastið framhjá markinu.

Sadio Mane gerði hins vegar engin mistök nokkrum mínútum seinna þegar Andrew Robertson fann hann í teignum, Liverpool komið yfir eftir tíu mínútur.

Leicester komst betur inn í leikinn þegar líða tók á fyrri hálfleikinn en það var Roberto Firmino sem skoraði annað mark Liverpool gegn gangi leiksins. Hann var einn á auðum sjó inni á teignum eftir hornspyrnu James Milner og skallaði boltann í netið.

Leikurinn var líflegur í upphafi seinni hálfleiks og áttu bæði lið færi til þess að skora mark. Liverpool hafði ekki fengið á sig mark fyrir leikinn og nýi markmaður þeirra, Alisson Becker, ákvað að breyta því og gefa Leicester mark og líflínu í leiknum.

Í stað þess að spyrna frá marki ætlaði hann að leika á Kelechi Iheanacho. Það mistókst hins vegar og náði Leicester-maðurinn boltanum auðveldlega af Brasilíumanninum, lagði boltann á Rachid Ghezzal sem skoraði í autt markið. Ghezzal fékk mark í fyrsta byrjunarliðsleik sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Leicester náði ekki að setja annað mark í leiknum og Liverpool fór með sigur af hólmi.

Liverpool er eins og áður segir með 12 stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum. Leicester er með sex stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira