Handbolti

Segir Hauk þann besta sem að hann hefur séð á þessum aldri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Þrastarson verður í eldlínunni með Selfossi í vetur.
Haukur Þrastarson verður í eldlínunni með Selfossi í vetur. fréttablaðið/ernir
Haukur Þrastarson, 17 ára gamall leikmaður Selfoss í Olís-deild karla í handbolta, fór hamförum á Evrópumóti 18 ára og yngri sem lauk í Króatíu í gær. Ungu drengirnir okkar þurftu að sætta sig við silfrið eftir tap gegn Svíþjóð í úrslitaleiknum.

Haukur spilaði lykilhlutverk í vörn og sókn en hann varð næst markahæsti maður mótsins með 47 mörk þrátt fyrir að hvíla einn leik og var á endanum útnefndur besti leikmaður mótsins.

Selfyssingurinn magnaði vakti mikla athygli og sagði þjálfari Þýskalands fyrir leik liðanna að leikstjórnandinn ungi væri klárlega besti leikmaður mótsins.

Haukur Þrastarson var valinn besti leikmaður mótsins.mynd/heimasíða ehf
Rasmus Boyesen, leikmaður Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni, er sammála því og rúmlega það. Boysen er reyndar miklu meira en bara leikmaður því hann heldur úti virkum Twitter-aðgangi þar sem að hann fjallar um handbolta um allan heim, er með heimasíðu þar sem að hann fjallar um helstu félagaskipti í íþróttinni og er reglulegur sérfræðingur í danska sjónvarpinu.

Boysen setti úrvalslið mótsins á Twitter í gær og fékk spurningu frá Íslendingi um hvað honum finnst um Hauk Þrastarson og svarið var ansi afgerandi:

„Hann er ótrúlegur. Þvílíkt efnilegur. Ég hef aldrei í sögunni séð betri og heilsteyptari leikmann á þessum aldri,“ svaraði Boysen og bætti síðar við að Íslendingar ættu marga efnilega leikmenn.

Þetta rímar við umfjöllun Seinni bylgjunnar síðasta vetur þar sem að Sebastian Alexandersson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður, sagði Hauk besta 16 ára leikmann Íslands frá upphafi.

„Ég hef ekki séð betri 16 ára leikmann. Ef við tökum alla þessa súpertalenta sem við höfum átt í gegnum árin og berum þá saman 16 ára gamla. Í meistaraflokki, með þetta stórt hluverk og þetta gott framlag bæði í vörn og sókn. Hann er einstakur,“ sagði Sebastian Alexandersson um Hauk sem varð 17 ára í apríl.


Tengdar fréttir

Svekktur og sáttur á sama tíma

Heimir Ríkharðsson, þjálfari U-18 ára liðs karla í handbolta, sem hlaut silfurverðlaun á Evrópumótinu í gær, segir að leikmenn liðsins séu margir framarlega í sínum aldursflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×