Lífið

Egill kunni ekki að baka, lærði allt á YouTube og opnaði bollakökustað

Stefán Árni Pálsson skrifar
Egill Björgvinsson og Elísabet Guðmundsdóttir reka saman Cupcake Café.
Egill Björgvinsson og Elísabet Guðmundsdóttir reka saman Cupcake Café.
Egill Björgvinsson kunni ekkert að baka og hélt sig að mestu frá eldhúsverkunum. Allt í einu byrjaði hann að baka bollakökur og opnaði í kjölfarið bakarí.

Í Íslandi í dag á föstudagskvöldið fór Vala Matt í heimsókn á Cupcake Café við Grettisgötu 3. Þau Egill og Elísabet Guðmundsdóttir reka staðinn saman.

„Ég var einn daginn úti að labba með hundana mína þegar ég bjó á Akranesi og er að hlusta á hljóðbók sem heitir The Power of broke. Það er svona bók um fólk sem hefur vegnað vel. Í henni er saga um konu sem heitir Gigi og hún byrjaði með ekkert, en tókst að byggja upp svona Cupcake stað,“ segir Egill í samtali við Völu Matt.

„Í dag er hún með einhverja fjörutíu fimmtíu staði í Bandaríkjunum. Ég svona hugsaði að baka kökur, með fullri virðingu til allra sem baka kökur, að ég gæti bara gert það líka,“ segir Egill sem byrjaði um leið að prófa sig áfram á YouTube og fór að baka bollakökur.

„Þegar ég kom heim úr þessum örlagaríka göngutúr settist ég niður og skrifaði niður þá hluti sem ég þurfti að gera til að opna þetta fyrirtæki. Ég skrifaði niður sjö atriði en seinna kom í ljós að maður þarf að gera töluvert fleiri hluti þegar maður opnar fyrirtæki. Á þessum lista var til dæmis að kaupa ofn, hrærivél, vera með leiguhúsnæði og númer eitt að vera með bestu kökurnar í bænum. Þá þurfti að smakka mikið en ég svona treysti mínum nammibragðlaukum þar sem ég hef verið mikill nammigrís í gegnum árin.“

Hér að neðan má sjá heimsókn Völu Matt á Cupcake Café.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×