Enski boltinn

Það tók Everton heilt ár og fjóra stjóra að fatta það sem allir vita um Gylfa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er að spila vel fyrir Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson er að spila vel fyrir Everton. vísir/getty
Chris Beesley, blaðamaður á Liverpool Echo, skrifaði lofgrein um Gylfa Þór Sigurðsson eftir frammistöðu hans í sigurleik Everton á móti Southampton um helgina.

Greinin bar heitið „Nýtt númer, nýtt hlutverk og nýtt upphaf fyrir Gylfa“ en íslenski landsliðsmaðurinn fær nú að spila í sinni stöðu fyrir aftan framherjann Cenk Tosun, í hinni svokölluðu „tíu“.

Það eru svo sem engar fréttir fyrir Íslendinga að Gylfi sé að spila best í þessari stöðu enda vita allir hér á landi að þarna vill hann spila. Það vita líka stuðningsmenn Swansea sem sáu Gylfa blómstra hjá liðinu í þessari stöðu og halda því uppi í úrvalsdeildinni einn síns liðs tvö ár í röð.

Þessi seinagangur Everton að átta sig á því hvar Gylfi vill spila og hvar hann spilar best er einmitt umfjöllunarefni í grein velska blaðamannsins Matthew Davis á Wales Online. Þar gerir hann létt grín að kollega sínum og í raun Everton.

„Það er búið að taka Everton tólf mánuði og fjóra knattspyrnustjóra til að átta sig á því að Sigurðsson er hinn hefðbundni leikstjórnandi sem spilar best í þessu hlutverki. Ekki sem framherji, ekki úti á kanti, ekki sem fölsk nía. Nei. Hann er bestur sem tía. Hvernig gátu menn verið svona lengi að fatta þetta?“ skrifar Davis.

Hann segir að sumarkaup Ronalds Koeman í fyrra hafi verið stórskrítin þar sem að hann keypti Gylfa, Wayne Rooney og Hollendinginn Davy Klaassen sem allir spila best rétt fyrir aftan framherjann. „Þetta var fáránlegt,“ skrifar Davis.

Eftir að Koeman var rekinn lét bráðabirgðastjórinn David Unsworth hann líka spila úti á kanti og það sama gerði Sam Allardyce í mörgum leikjum.

„Sigurðsson fæddist með náðargáfu fyrir að sjá og skilja leikinn, hann er ekki hraður. Hann notar hraða annarra til að gera það sem að hann getur ekki. Það er þessi hæfileiki hans til að vera fljótari en aðrir að hugsa sem gerir hann svo einstakan,“ segir Matthew Davis.


Tengdar fréttir

Messan: Gylfi stýrir umferðinni

Gylfi Þór Sigurðsson átti góðan leik fyrir Everton er liðið vann 3-1 sigur á Southampton á laugardag. Messan fór yfir hans leik og breytinguna á honum frá því á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×