Liverpool með fullt hús og hreint mark eftir tvær umferðir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Milner skorar af vítapunktinum.
Milner skorar af vítapunktinum. Vísir/Getty
Liverpool er með sex stig eftir fyrstu tvo leikina í ensku úrvalsdeildinni eftir að liðið vann 2-0 sigur á Crystal Palace á útivelli í síðasta leiknum í annarri umferð deildarinnar.

Fyrsta mark leiksins kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Mohamed Salah féll þá eftir baráttu við Mamadou Sakho og Michael Oliver dæmdi Sakho brotlegann við litla hrifningu.

James Milner steig á punktinn og hann er ekki mikið fyrir það að klúðra vítaspyrnum. Hann skoraði af miklu öryggi og Liverpool 1-0 yfir í leikhlé.

Palace varð fyrir áfalli stundarfjórðungi fyrir leikslok er Aaron-Wan Bissaka felldi Salah sem var kominn einn í gegn. Oliver dómari gat lítið annað gert en að reka Bissaka í sturtu og Palace marki undir og einum manni færri.

Það var svo í uppbótartíma er annað mark leit dagsins ljós. Eftir hornspyrnu voru heimamenn í Palace fáliðaðir til baka, Salah lagði boltann inn fyrir á Mane sem lék á Hennessey í marki Palace og skoraði.

Góður 2-0 sigur hjá Liverpool sem er með sex stig eftir fyrstu tvo leikina. Þeir hafa skorað sex mörk í fyrstu tveimur leikjunum og ekki fengið á sig mark. Palace er með þrjú stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira