Enski boltinn

Maðurinn sem Sir Alex kallaði kúkalabba farinn að gera lítið úr hetjum Man. Utd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mino Raiola er mikið í símanum þessa dagana að reyna að koma Pogba frá United.
Mino Raiola er mikið í símanum þessa dagana að reyna að koma Pogba frá United. vísir/getty
Ítalski ofur umboðsmaðurinn Mino Raiola er langt frá því vinsælasti maðurinn á Old Trafford þessa dagana en hann er að reyna að koma Paul Pogba öðru sinni frá Manchester United, að þessu sinni til Barcelona.

Pogba var einn efnilegasti leikmaður heims þegar að Raiola hjálpaði honum að losna frá United fyrir lítið fé árið 2012 en hann fór þá til Juventus og varð að stjörnunni sem að hann er í dag.

United þurfti að kaupa hann til baka fyrir 89 milljónir punda en franski miðjumaðurinn, sem varð heimsmeistari í Rússlandi í sumar, hefur átt misjafna daga í búningi United síðan að hann kom aftur.

Paul Pogba gæti verið á útleið.Vísir/Getty
Paul Scholes, fyrrverandi miðjumaður Manchester United og einn allra besti leikmaður í sögu félagsins, er lítill aðdáandi Frakkans en Scholes finnst hann oft ekki leggja nóg á sig og alls ekki taka nógu mikla ábyrgð.

Scholes sagði frammistöðu Pogba í 3-2 tapinu gegn Brighton um helgina vera algjörlega hræðilega og bætti við að Pogba væri langt því frá nægilega stöðugur í sínum leik fyrir United. Scholes er einn af sérfræðingum BT Sport á Englandi.

Þessu tók Mino Raiola ekki vel og skellti sér því á Twitter. Hann var ekki búinn að setja inn eitt tíst frá því fjórða júlí en fannst tími til kominn í morgun þegar að hann var greinilega búinn að sjá hvað Scholes sagði um helgina.



„Sumir þurfa að tala því þeir eru hræddir um að gleymast. Paul Scholes myndi ekki þekkja leiðtoga þó að hann stæði fyrir framan Winston Churchill,“ skrifaði Raiola og fór svo alls ekki leynt með áætlanir sína um að koma Frakkanum burt í næsta tísti:

„Paul Scholes ætti að gerast yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu og segja Ed Woodward að selja Pogba. Ég myndi ekki sofa mikið ef ég myndi reyna að finna nýtt félag fyrir Pogba,“ skrifar Raiola og „taggar“ Pogba í bæði tístin.

Ef það er einn maður sem á eftir að verða pirraður heima hjá sér í Manchester þegar að hann les morgunfréttirnar um Raiola er það Sir Alex Ferguson en hann hatar Raiola eftir viðskiptin við hann árið 2012 þegar að Pogba fór til Juventus.

Það var síðast í fyrra sem að Sir Alex kallaði Ítalann kúkalabba er hann hélt peppræðu fyrir ruðningsliðið Sale Sharks.

„Hann er vondur umboðsmaður. Hann er kúkalabbi (e. shitbag),“ sagði Ferguson en við kynningu á ævisögu sinni ári áður sagði Ferguson opinberlega að það væru einn til tveir umboðsmenn sem að honum líkaði ekki við og Raiola væri einn af þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×