Erlent

Melania varar við neteinelti á meðan eiginmaðurinn fer hamförum á Twitter

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bandarísku forsetahjónin, Melania og Donald Trump.
Bandarísku forsetahjónin, Melania og Donald Trump. Vísir/getty

Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, varaði við hættum samfélagsmiðla og neteineltis sama dag og eiginmaður hennar, Donald Trump Bandaríkjaforseti, fór ófögrum orðum um fyrrverandi yfirmann CIA á Twitter.

Melania hefur lengi beitt sér fyrir öryggi og góðri hegðun á samfélagsmiðlum og hélt uppteknum hætti á ráðstefnu um eineltisforvarnir í Maryland í gær.

„Samfélagsmiðlar eru óumflýjanlegur þáttur í lífi barna okkar í nútímasamfélagi. Hægt er að nota þá [samfélagsmiðla] á jákvæðan hátt en þeir geta einnig verið skaðlegir þegar þeir eru ekki notaðir rétt,“ sagði Melania í opnunarræðu ráðstefnunnar.

„Versti forstjóri í sögunni“

Á sama tíma gagnrýndi eiginmaður Melaniu, Donald Trump, John Brennan, fyrrverandi yfirmann Bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, harðlega á Twitter. Forsetinn afturkallaði nýlega öryggisheimild Brennan auk fleiri háttsettra fyrrverandi embættismanna. Á sunnudag sagðist Brennan íhuga að kæra þessa ákvörðun Donalds.

Forsetinn sagði Brennan meðal annars „versta forstjóra CIA í sögu landsins okkar“. Þá sagðist Donald vona að Brennan héldi lögsókninni til streitu, þar sem þá fengist aðgangur að ýmsum gögnum hans og þar með kæmi í ljós hversu óhæfur hann hefði verið í starfi.

Forsetinn hélt því einnig fram að Brennan hefði verið viðriðinn „nornaveiðar Muellers“, þ.e. rannsókn sérstaks saksóknara Roberts Muellers á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum árið 2016.Þetta er ekki í fyrsta skipti sem forsetafrúin Melania virðist ganga þvert á skoðanir eiginmanns síns. Hún lýsti til að mynda nýlega yfir ánægju með körfuboltamanninn LeBron James eftir að forsetinn hafði hallmælt honum opinberlega.

Þá setti hún sig einnig upp á móti aðskilnaðarstefnu ríkisstjórnar Donalds í málum innflytjendafjölskyldna sem koma ólöglega inn í Bandaríkin um landamærin við Mexíkó.


Tengdar fréttir

Melania og Ivanka ósammála forsetanum

Konurnar sem eru hvað nánastar Bandaríkjaforsetanum, Donald Trump, hafa báðar gefið út yfirlýsingar í vikunni þar sem þær segjast ósammála forsetanum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.