Enski boltinn

NFL-deildin að trufla heimaleik hjá Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik New Orleans Saints og Miami Dolphins á Wembley.
Frá leik New Orleans Saints og Miami Dolphins á Wembley. Vísir/Getty
Það er allt á öðrum endanum hjá heimavallarráði Tottenham þar sem enska félagið er í miðjum klíðum við að endurraða heimaleikjum haustsins eftir að ljóst varð að nýr leikvangur félagsins yrði ekki tilbúinn.

Nýjasta vandamálið er stórleikurinn við Englandsmeistara Manchester City. Leikur Tottenham og Manchester City átti að fara fram 28. október á nýja Tottenham leikvanginum. Daily Mail segir frá.

Tottenham ætlaði að færa leikinn yfir á Wembley, eins og hina heimaleiki sína fram að því að nýr leikvangur er klár, en að þessu sinni var það ekki hægt.

Wembley er nefnilega frátekinn sunnudaginn 28. október næstkomandi því þá spila á leikvanginum NFL-liðin Jacksonville Jaguars og Philadelphia Eagles. Nokkrir leikir í ameríska fótboltanum eru nú spilaðir í London á hverju ári.





Lausnin er því að færa leik Tottenham og Manchester City til mánudagsins en Tottenham þarf samþykki fyrir því og ekki bara frá ensku úrvalsdeildinni. Manchester City þarf að samþykkja þessa breytingu og þá er leikurinn líka í beinni á Sky Sports.

Það er nóg að leikjum hjá Manchester City á þessum tíma og því gæti þetta kallað á tilfærslur á næstu leikjum liðsins sem eru í enska deildabikarnum og ensku deildinni. Inn í þetta blandast síðan Meistaradeildardrátturinn og hversu löng ferðalög og hvaða leikdagar bíða liðanna þar.

Það er þröngt á leikjaplani liðanna tveggja og því er þessi truflun frá NFL-deildinni að gera Tottenham lífið leitt.

Þessari breytingu fylgir þessu líka annað vandamál því það mun reyna verulega á starfsmenn Wembley að gera leikvanginn klárann fyrir knattspyrnuleik aðeins sólarhring eftir að amerískur fótboltaleikur fór fram á honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×