Enski boltinn

Segir Man. Utd spila fótbolta sem neðri deildar lið gerðu fyrir fjörutíu árum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marouane Fellaini nýtist vel í háu boltunum.
Marouane Fellaini nýtist vel í háu boltunum. vísir/getty
Manchester United tapaði, 3-2, fyrir Brighton í ensku úrvalsdeildinni um helgina en liðið hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir skelfilega spilamennsku sína í leiknum. Einn þeirra sem lét í sér heyra var Graeme Souness, fyrrverandi leikmaður Liverpool og skoska landsliðsins, sem finnst United spila skelfilegan fótbolta.

„Það er ekkert að því vera með beinskeytt lið en Manchester United er umdeilanlega stærsta fótboltafélag í heimi og það er að spila fótbolta sem að lið í neðri deildum voru að spila fyrir 30-40 árum,“ sagði Souness sem er einn af aðalsérfræðingum Sky Sports um ensku úrvalsdeildina.

„Liðið er að sparka langt fram, vonast eftir því að vinna annan bolta og sjá hvað gerist. Manchester United verður að vera betra en það. Þetta er lið sem á að berjast um titilinn en það er ekki að fara að gerast á næstunni með þennan leikmannahóp.“

Ensku blöðin keppast nú við að skrifa um vandamál Manchester United og telja sum þeirra að Mourinho sé búinn að missa klefann.

„Mourinho er í hættulegri stöðu ef þetta er það sem að liðið getur sýnt okkur á vellinum. Það er stórt verkefni fyrir höndum hjá Manchester United að koma þessari lest aftur á sporið. Það eru eflaust margir að benda á næsta mann í búningsherberginu og margir þeirra eru að benda á knattspyrnustjórann,“ sagði Souness.

„Ég hreinlega veit ekki hvort það eru einhverjir stórir leikmenn og stórir karakterar í búningsklefa United en það er kominn tími fyrir þá, ef þeir eru til, að ganga aðeins í málin. Stjórinn getur ekki gert allt,“ sagði Graeme Souness en alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×