Körfubolti

Undirbjó sig fyrir tímabilið með Njarðvík með því að spila á móti James Harden

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeb Ivey og James Harden.
Jeb Ivey og James Harden. Mynd/Fésbókin/Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur
Það er ekki slæmt að undirbúa sig fyrir Domino´s deildina í körfubolta 2018-19 með því að spila á móti besti leikmanni NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð.

Bandaríkjamaðurinn Jeb Ivey mun spila með Njarðvík í Domino´s deild karla í körfubolta í vetur en hann snýr aftur í Ljónagryfjuna eftir meira en ellefu ára fjarveru.

Ivey ætlar að mæta til Íslands í flottu formi og hefur verið að undirbúa sig í Bandaríkjunum. Ivey er orðinn 37 ára gamall en er hvergi nærri hættur.

Njarðvíkingar vöktu athygli á því á fésbókarsíðu sinni að bakvörðurinn þeirra hafi verið að spila á móti sjálfum James Harden á dögunum.



James Harden var kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð en var þá með 30,4 stig og 8,8 stoðsendingar að meðaltali í leik hjá liði sem vann 65 leiki í deildarkeppninni.

„Okkar maður Jeb Ivey hefur verið duglegur seinustu vikur að æfa sig fyrir komandi átök í Dominosdeildinni en á dögunum átti hann hörku æfingu á móti MVP NBA deildarinar á síðustu leiktíð James Harden þar sem þeir félagar spiluðu á hvorn annan og að sjálfsögðu hafði okkar maður betur í því einvígi,“ segir meðal annars í færslunni hjá Njarðvíkingum.

Jeb Ivey spilaði tvö tímabil með Njarðvíkingum, 2005-06 og 2006-07. Liðið varð Íslandsmeistari fyrra tímabilið og komst líka í úrslitaeinvígið árið eftir en tapaði þá á móti KR.

Ivey kom líka til Snæfells í miðjum lokaúrslitum 2010 og hjálpaði liðinu að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Hvorki Njarðvík né Snæfell hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn síðan að Ivey fór.

Ivey fór frá Njarðvík til Þýskalands og hefur einnig spilað í Finnlandi og Frakklandi. Hann varð tvisvar sinnum finnskur meistari með Nilan Bisons Loimaa (2011–12 og 2012–13) en það eru í einu tvö skiptin sem félagið hefur unnið finnska titilinn. Sannur sigurvegari hér á ferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×