Handbolti

Aron lagði sigursælasta liðið og er kominn í undanúrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Kristjánsson er að gera flotta hluti með Barein.
Aron Kristjánsson er að gera flotta hluti með Barein. vísir/getty
Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í Barein unnu flottan sigur, 27-25, á Suður-Kóreu í milliriðli tvö á Asíuleikunum í handbolta en með sigrinum tryggðu strákarnir hans Arons sér sæti í undanúrslitum leikanna.

Barein-liðið var með tveggja marka forskot í hálfleik og lét það aldrei af hendi í seinni hálfleik og vann á endanum sannfærandi sigur. Liðið var mest fjórum mörkum yfir á lokakaflanum.

Aron er búinn að vinna alla fimm leikina með Barein á Asíuleikunum, þrjá í riðlakeppninni og nú tvo fyrstu í milliriðlinum. Næst á liðið fyrir höndum auðveldan leik á móti Hong Kong.

Suður-Kórea er sigursælasta lið Asíuleikanna frá upphafi en það hefur unnið handboltann á leikunum fimm sinnum af þeim átta skiptum sem keppt hefur verið íþróttinni á Asíuleikunum síðan árið 1982.

Suður-Kórea hefur alltaf nema einu sinni fengið verðlaun en liðið hafnaði í fjórða sæti árið 2006 þegar að leikarnir fóru einmitt fram í Barein. Barein náði sínum besta árangri fyrir fjórum árum í Suður-Kóreu þegar að það hafnaði í þriðja sæti.

Aron gæti mætt Degi Sigurðssyni og japanska liðinu í undanúrslitum en Japan á leik við Írak í dag í milliriðli eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×