Körfubolti

Kvennalið Snæfells með þrjá erlenda leikmenn í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angelika Kowalska.
Angelika Kowalska. Mynd/Heimasíða Snæfells
Kvennalið Snæfells í Domino´s deildinni í körfubolta ætlar að tefla fram þremur erlendum leikmönnum á komandi tímabili og er fyrsta kvennaliðið sem tilkynnir um slíkan liðstyrk.

Snæfell sagði frá því á heimasíðu sinni að félagið væri búið að semja við hina pólsku Angeliku Kowalska. Áður hafði félagið gengið frá samningum við hina bandarísku Kristen McCarthy og hina króatísku Katarinu Matijevic.

Angelika Kowalska er 26 ára framherji frá Póllandi sem hefur spilað með U-16,-18 og-20 ára landsliðum Póllands. Angelika hefur ennfremur spilað nokkur tímabil í efstu deild Póllands en á síðasta tímabili spilaði Angelika í Frakklandi með Basket-Ball Cournon d'Auvergne.

Kristen McCarthy þekkja flestir en hún varð Íslandsmeistari með Snæfelli tímabili 2014-15 og spilaði einnig með liðinu síðasta vetur. McCarthy mun þjálfa yngri flokka ásamt því að leika með Snæfell. McCarthy var með 29,6 stig, 13,4 fráköst og 4,1 stoðsendingar að meðaltali á síðustu leiktíð.

Katarina Matijevic er 23 ára og 184 sentímetra framherji sem var á sínum tíma í yngri landsliði Króatíu. Hún hefur líka verið að spila í Austurríki. Katarina Matijevic mun einnig þjálfa yngri flokka ásamt því að leika með Snæfell.

Það er ljóst á þessu að Snæfellingar ætla að gera allt til að endurheimta Íslandsbikarinn sem Snæfellskonur unnu þrjú ár í röð frá 2014 til 2016. Snæfell komst ekki í úrslitakeppnina í fyrra en fór alla leið í lokaúrslitin tímabilið á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×