Handbolti

Aftur endurkoma í seinni hjá strákunum hans Dags og nú vannst sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Vísir/Getty

Strákarnir hans Dags Sigurðssonar í japanska landsliðinu eiga enn möguleika á því að komast í undanúrslit á Asíuleikunum í handbolta eftir þriggja marka sigur á Írak í milliriðli keppninnar í dag.

Japanska liðið vann leikinn 27-24 eftir að hafa verið 12-15 undir í hálfleik. Japan varð að vinna leikinn til að eiga möguleika á sæti í undanúrslitunum.

Hiroki Motoki var hetja sinna manna í dag með 9 mörk úr 11 skotum en Yuto Agarie skoraði 7 mörk úr 10 skotum.

Þetta var annar leikurinn í röð þar sem Dagur nær að kveikja í sínum mönnum eftir slæma byrjun.

Japan náði jafntefli á móti Sádí Arabíu eftir að hafa verið fimm mörkum undir um miðjan seinni hálfleik. Sá leikur mátti heldur ekki tapast.

Að þessu sinni var Japan fjórum mörkum undir, 14-18, þegar 26 mínútur voru eftir af leiknum. Japanir skoruðu þá fjögur mörk í röð, unnu ennfremur næstu fjórtán mínútur 8-2 og tóku frumkvæðið í leiknum.

Japanska liðið náði mest fimm marka forystu á lokakafla leiksins en Írakarnir náðu að skora tvö síðustu mörkin og minnka muninn í þrjú mörk.

Japan er með 3 stig í milliriðlinum, einu stigi meira en Katar og tveimur stigum meira en Sádí Arabía. Katarbúar og Sádar mætast seinna í dag. Síðasti leikur Japans í milliriðlinum er síðan á móti Katar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.