Handbolti

Aftur endurkoma í seinni hjá strákunum hans Dags og nú vannst sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Vísir/Getty
Strákarnir hans Dags Sigurðssonar í japanska landsliðinu eiga enn möguleika á því að komast í undanúrslit á Asíuleikunum í handbolta eftir þriggja marka sigur á Írak í milliriðli keppninnar í dag.

Japanska liðið vann leikinn 27-24 eftir að hafa verið 12-15 undir í hálfleik. Japan varð að vinna leikinn til að eiga möguleika á sæti í undanúrslitunum.

Hiroki Motoki var hetja sinna manna í dag með 9 mörk úr 11 skotum en Yuto Agarie skoraði 7 mörk úr 10 skotum.

Þetta var annar leikurinn í röð þar sem Dagur nær að kveikja í sínum mönnum eftir slæma byrjun.

Japan náði jafntefli á móti Sádí Arabíu eftir að hafa verið fimm mörkum undir um miðjan seinni hálfleik. Sá leikur mátti heldur ekki tapast.

Að þessu sinni var Japan fjórum mörkum undir, 14-18, þegar 26 mínútur voru eftir af leiknum. Japanir skoruðu þá fjögur mörk í röð, unnu ennfremur næstu fjórtán mínútur 8-2 og tóku frumkvæðið í leiknum.

Japanska liðið náði mest fimm marka forystu á lokakafla leiksins en Írakarnir náðu að skora tvö síðustu mörkin og minnka muninn í þrjú mörk.

Japan er með 3 stig í milliriðlinum, einu stigi meira en Katar og tveimur stigum meira en Sádí Arabía. Katarbúar og Sádar mætast seinna í dag. Síðasti leikur Japans í milliriðlinum er síðan á móti Katar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×