Golf

Ólafía og Birgir hefja leik í dag

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ólafía Þórunn verður að spila vel um helgina.
Ólafía Þórunn verður að spila vel um helgina. vísir/getty

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, og Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, hefja leik á atvinnumannamótum erlendis í dag þar sem Ólafía leikur í Kanada en Birgir Leifur í Tékklandi.

Ólafía Þórunn tekur þátt í CP-meistaramótinu í Kanada sem er hluti af LPGA-mótaröðinni og þarf heldur betur að bretta upp ermar. Hún missti af niðurskurði um síðustu helgi og er í verulegri hættu á að ná ekki að endurnýja þátttökuréttinn á LPGA-mótaröðinni á næsta ári. Er hún í 139. sæti á stigalistanum þegar skammt er eftir af tímabilinu og þarf að komast meðal hundrað efstu til að halda keppnisréttinum.

Tók hún einnig þátt í þessu móti í fyrra þar sem henni tókst ekki að ná niðurskurði. Er hún með Sydnee Michaels og Madeleine Sheils í ráshóp og hefur leik rétt eftir hádegi að staðartíma á tíunda teig.

Birgir Leifur keppir á sama tíma í Tékklandi á tékkneska meistaramótinu sem er hluti af Evrópumótaröðinni. Verður þetta níunda mót Birgis á þessari sterkustu mótaröð Evrópu og eru frábærir kylfingar á borð við Lee Westwood, Danny Will­ett, Padraig Harrington og Thomas Piet­ers skráðir til leiks.

Mótið fer fram í Prag og á Birgir teigtíma rétt fyrir klukkan níu að staðartíma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.