Erlent

Notar morðið á Tibbetts til að gagnrýna „vonlaus“ innflytjendalög

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti á stuðningsmannafundi í fyrradag.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á stuðningsmannafundi í fyrradag. Vísir/getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti birti í gær myndband á Twitter-reikningi sínum þar sem hann notar morðið á Mollie Tibbetts til þess að kalla eftir hertri innflytjendalöggjöf í Bandaríkjunum.

Mexíkóskur innflytjandi, hinn 24 ára gamli Christian Bahena Rivera, hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt Tibbetts. Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs hefur Rivera dvalið ólöglega í Bandaríkjunum í allt að sjö ár. Hann leiddi lögreglu að líki Tibbetts en segist ekki muna eftir því að hafa myrt hana.

Rivera var leiddur fyrir dómara í gær.Vísir/AP
Í myndbandinu sem Trump birti á Twitter í gær segir hann nauðsynlegt að endurskoða bandaríska innflytjendalöggjöf í ljósi nýliðinna atburða.

„Mollie Tibbetts, mögnuð ung kona, hefur nú verið aðskilin frá fjölskyldu sinni um alla eilífð. Það kom manneskja hingað ólöglega frá Mexíkó og drap hana. Við þurfum múrinn, við þurfum að breyta innflytjendalögum okkar, við þurfum að breyta landamæralögum okkar.“

Sjá einnig: Hinn seki leiddi lögreglu að líki FitBit-stúlkunnar



Þá hamrar Trump á því í myndbandinu að um sé að ræða verkefni fyrir Repúblikana þar sem Demókratar muni ekki láta verða af því að knýja fram breytingar í málaflokknum.

„Þetta er eitt tilvik af mörgum. Það er gríðarleg glæpastarfsemi sem reynir að komast í gegnum landamærin. Löggjöf okkar er sú versta í öllum heiminum. Enginn er með lög eins og Bandaríkin. Þau eru hreinlega vonlaus,“ segir Trump.

Myndbandið má horfa á í heild hér að neðan.

Margir hafa gagnrýnt forsetann harðlega fyrir að gera morðið að pólitísku bitbeini. Trump hefur ætíð verið harður á því að herða þurfi innflytjendalög í Bandaríkjunum.

Morðið á hinni tvítugu Tibbet hefur vakið mikinn óhug í Bandaríkjunum. Lík hennar fannst á kornakri í Iowa-ríki í vikunni en hennar hafði þá verið saknað síðan 18. júlí síðastliðinn. Síðast spurðist til Tibbet þegar hún fór út að hlaupa og hafði alríkislögreglan FBI notast við gögn úr FitBit heilsuúri hennar við leitina.


Tengdar fréttir

Yfir 200 yfirheyrslur vegna mannshvarfs

Yfir 200 yfirheyrslur hafa verið framkvæmdar í tengslum við hvarf Mollie Tibbets, tvítugrar stúlku sem hvarf í mánuðinum í bænum Brooklyn í Iowa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×