Viðskipti innlent

Hagnaður Lýsis dróst saman um 90 prósent

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis.
Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis. Vísir/GVA
Hagnaður Lýsis nam 41,6 milljónum króna á síðasta ári og dróst saman um ríflega 90 prósent frá fyrra ári þegar hann var 537 milljónir króna, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Samdrátturinn skýrist að stórum hluta af minni gengishagnaði en hann nam 215 milljónum króna í fyrra borið saman við 870 milljónir árið 2016. Rekstrartekjur námu 8.217 milljónum króna á síðasta ári og drógust saman um níu prósent á milli ára.

EBITDA félagsins – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – var 576 milljónir í fyrra og batnaði lítillega, eða um 12 milljónir.

Stjórn Lýsis leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á þessu ári. Stærsti hluthafi félagsins, með 84 prósenta hlut, er eignarhaldsfélagið Ívar. Það er í 73,3 prósenta eigu Ataks eigna ehf., félags Katrínar Pétursdóttur forstjóra, og 26,7 prósenta eigu G Fjárfestingafélags ehf, félags Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar stjórnarformanns.

Leiðrétting:

Ranghermt var í fyrstu útgáfu fréttarinnar, sem birtist í Fréttablaðinu í dag, að Guðbjörg Matthíasdóttur væri einn aðaleigenda Ívars ehf. Hið rétta er að félag í eigu Katrínar Pétursdóttur forstjóra fer með 73,3 prósenta hlut í Ívari og félag Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar stjórnarformanns heldur á 26,7 prósenta hlut. Beðist er velvirðingar á mistökunum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×