Menning

Vaka til heiðurs Jakobínu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Áður en ég las bréfin vissi ég lítið um æsku mömmu, bara árin eftir að hún kom í Garð,“ segir Sigríður.
"Áður en ég las bréfin vissi ég lítið um æsku mömmu, bara árin eftir að hún kom í Garð,“ segir Sigríður. Fréttablaðið/Sigryggur Ari
Dagskrá til heiðurs Jakobínu Sigurðardóttur verður í Iðnó í dag og hefst klukkan 15. Sagnfræðingurinn Sigríður K. Þorgrímsdóttir, dóttir skáldkonunnar, er meðal þeirra sem þar koma fram.

„Síðan mamma dó hef ég geymt bréfasafnið hennar sem er nokkuð stórt,“ byrjar Sigríður, spurð um hvað hún ætli að tala. „Til að gera langa sögu stutta fór ég að raða saman þessum bréfum og ákvað að skrifa bók um mömmu sem átti að koma út í ár en þegar maður er í fullu starfi ganga ekki allar fyrirætlanir upp. Því kviknaði hugmyndin að þessari menningardagskrá, hún heitir eftir annarri slíkri sem rauðsokkurnar héldu 1979.“

Í erindi sínu kveðst Sigríður ætla að tæpa á því hverjar stærstu spurningarnar voru hjá henni þegar hún byrjaði að skrifa bókina og reyna í örfáum atriðum að lýsa því hvernig þeim er svarað. „Ég veit að mömmu þætti þessi bók mín óþarfi. Hún vildi ekki beina kastljósinu að sinni persónu, enda af þeirri kynslóð og auk þess af Vestfjörðum. Hún lét víst markvisst eyðileggja mörg bréf sem hún skrifaði sjálf, því hef ég komist að. En mín hugsun er sú að halda minningu hennar á lofti og nafni sem höfundar.“

Jakobína var fædd í Hælavík á Hornströndum, elst þrettán systkina. Hún fór ung að heiman og vann fyrir sér í Reykjavík og á Suðurlandi. Árið 1949 tók hún saman við Þorgrím Starra Björgvinsson, bónda í Garði í Mývatnssveit. Eftir hana liggja fjórar skáldsögur, þrjú smásagnasöfn, kvæðabók og minningar og ævintýri fyrir fullorðna. Auk þess birtust bæði ljóð, greinar og smásögur í tímaritum og blöðum. Umfjöllunarefni hennar voru af ýmsum toga, meðal þeirra helstu má nefna stéttabaráttu, stöðu kvenna og náttúruvernd.

En hverju skyldi Sigríður hafa komist að þegar fór að fara yfir bréfin sem hún hefur undir höndum?

„Mamma var 17 ára þegar hún fór til Reykjavíkur og ég fræðist um margt með því að lesa bréfin sem fólkið af Hornströndum skrifar henni. Úr því hefur orðið til saga lítillar stelpu úr nyrstu og einangruðustu byggð landsins sem ætlar sér, frá því hún man eftir sér, að verða skáld þegar hún verður stór.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×