Innlent

Sjö ákærðir vegna innbrota í gagnaver

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknari hjá lögreglunni á Suðurnesjum sækir málið af hálfu ákæruvaldsins.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknari hjá lögreglunni á Suðurnesjum sækir málið af hálfu ákæruvaldsins. Fréttablaðið/Ernir
Sjö eru ákærðir í einu umfangsmesta þjófnaðarmáli síðari ára hér á landi sem varðar þjófnað á 600 öflugum bitcoin leitarvélum úr þremur gagnaverum í lok síðasta árs og upphafi þessa árs.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 11. september næstkomandi. Ákæra var gefin út í málinu fyrir mörgum vikum en vegna sumarleyfa var málinu ekki úthlutað til dómara fyrr en í síðustu viku og þess vegna hefur orðið bið á birtingu ákærunnar. Fjölmiðlar hafa því enn ekki fengið upplýsingar um efni hennar, en hún telst formlega birt eftir að dómari hefur gefið út fyrirköll vegna þingfestingarinnar.

Sjá einnig: Flutningurinn til Íslands minnti Sindra á Con Air

Þrír eru enn í farbanni vegna málsins, þeirra á meðal Sindri Þór Stefánsson sem strauk af Sogni í vor með eftirminnilegum hætti og komst alla leið til Hollands. Ekki liggur fyrir hvort fleiri en Sindri Þór eru ákærðir fyrir sjálfan þjófnaðinn á tölvunum eða hver hlutur hinna sex er talinn vera í málinu. Ekki kemur í ljós fyrr en við þingfestingu málsins hvaða afstöðu sakborningarnir sjö hafa til ákærunnar.

Verðmæti tölvanna sem stolið var er talið hlaupa á hundruðum milljóna en vélarnar voru sérhannaðar til að grafa eftir bitcoin. Vélunum var stolið úr gagnaverum bæði í Reykjanesbæ og Borgarbyggð í þremur innbrotum sem framin voru á tímabilinu desember 2017 til síðari hluta janúar 2018.

Rannsókn málsins hefur verið umfangsmikil og leitin að hinum stolnu tölvum teygt sig alla leið til Kína þar sem 600 tölvur voru í óskilum fyrr í vor. Sú leit hefur þó enn engan árangur borið og tölvunar enn ófundnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×