Fótbolti

Leikmenn Barcelona rifu heilu torfurnar og líktu vellinum við strönd: Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Barcelomna rifu hreinlega upp heilu þökurnar.
Leikmenn Barcelomna rifu hreinlega upp heilu þökurnar. Vísir/Getty
Það voru mjög ósáttir leikmenn Barcelona sem gengu af velli um helgina þrátt fyrir 1-0 útisigur á Valladolid.

Ástæðan er skelfilegt ástand grasvallarins en leikmenn Barcelona gátu hreinlega þakkað fyrir að meiðast ekki í þessum leik.

Lionel Messi skoraði ekki í leiknum sem var kannski skiljanlegt enda ekki bara að reyna að komast í gegnum þétta varnarlínu Real Valladolid heldur framhjá ótal „þúfum“ og gildrum á lausum vellinum.

Real Valladolid er nýliði í spænsku deildinni í ár. Liðið komst upp í gegnum umspil en endaði í fimmta sæti b-deildinni á síðasta tímabili.





Leikvangur Real Valladolid heitir Estadio José Zorrilla og var langt frá því að vera tilbúinn að hýsa leik í spænsku deildinni.

„Á sumum stöðum á vellinum var eins og þú værir á ströndinni,“ sagði Sergio Busquets, miðjumaður Barcelona.





„Það er ótrúlegt að enginn frá La Liga hafi fundist ástæða til að skoða grasið fyrir leikinn. Það er ekki hægt að spila á þessu,“ sagði Busquets.

„Þetta var aumkunarvert. Ég vona að þeir sem ráða komi sínu á hreint og lagi þetta því þetta er sorglegt,“ sagði Gerard Pique.

La Liga hefur gefið frá sér tilkynningu þar sem þeir staðfesta að rannsókn sé farin í gang af hverju völlurinn hafi ekki verið boðlegur.

Nú hefur komið í ljós að vallarstarfsmenn á Estadio José Zorrilla endurlögðu grasið á þriðjudaginn var eða innan við viku fyrir leikinn. Það þarf því ekki að koma mikið á óvart að völlurinn hafi verið laus í sér.





Knattspyrnustjórinn Sergio Gonzalez sagði að félagið hafi gert allt í sínu valdi til að gera völlinn klárann í tíma.

„Við vorum síðasta félagið til að tryggja okkur sæti í deildinni og við vorum í vandræðum með að gera völlinn klárann fyrir fyrsta heimaleik,“ viðurkenndi Sergio Gonzalez.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar skrautlegar myndir af grasinu á Estadio José Zorrilla.



Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×