Körfubolti

Mætti klukkutíma of snemma en var samt síðastur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson í leik í frönsku deildinni. Hér er hann með Cedric Heitz sem þjálfaði lið Chalons-Reims.
Martin Hermannsson í leik í frönsku deildinni. Hér er hann með Cedric Heitz sem þjálfaði lið Chalons-Reims. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsbakvörðurinn Martin Hermannsson er byrjaður á fullu með þýska körfuboltaliðinu Alba Berlín og honum finnst að metnaðurinn sé meiri þar en hann hefur áður kynnst á körfuboltavellinum.

Martin Hermannsson hefur spilað í Frakklandi undanfarin tvö tímabil, fyrst með Etoile de Charleville-Mezieres í B-deildinni og svo með Chalons-Reims í A-deildinni.

Martin stóð sig frábærlega bæði tímabilinu og hefur nú tekið enn eitt skrefið upp á við á ferlinum.

Nú er hann kominn til áttfaldra Þýskalandsmeistara í Alba Berlin og Martin fór yfir fyrstu kynni sín af félaginu í viðtali við Kristján Jónsson í Morgunblaðinu í dag.

„Eins og þetta blasir við mér eftir fyrstu vikurnar á undirbúningstímabilinu var þetta meira stökk en ég bjóst við varðandi æfingarnar sjálfar. Hraðinn á æfingunum, metnaður leikmanna, þjálfunin og allt í kringum þetta er svakalegt,“ sagði Martin í viðtalinu.

Martin Hermannsson í leik með Chalons-Reims í frönsku A-deildinni í fyrra.Vísir/Getty
„Ég taldi mig vera að gera vel með því að mæta klukkutíma áður en æfing hófst til þess að undirbúa mig. Þá voru allir löngu mættir og byrjaðir að svitna. Menn eru einnig klukkutíma lengur að æfa eitt og annað eftir að skipulagðri liðsæfingu lýkur,“ sagði Martin í fyrrnefndu viðtali.

Martin er ekki í Frakklandi lengur svo mikið er víst. „Þetta er nánast eins og nýr heimur varðandi það hversu mikið er æft í samanburði við það sem ég kynntist í Frakklandi. Ég er mjög hrifinn af því,“ sagði Martin í viðtalinu við Kristján sem má sjá hér.

Martin lék sinn fyrsta æfingaleik með Alba Berlín í gærkvöldu og var þá í byrjunarliðinu. Hann skoraði 12 stig og gaf 5 stoðsendingar á 22 mínútum í góðum sigri á pólsku meisturunum í Zielona Gora.





Martin hitti úr 4 af 5 skotum sínum utan af velli en 2 af 4 vítum hans fóru reyndar forgörðum. Hann stal einum bolta og fiskaði líka þrjár villur.

Þessi frammistaða kemur ofan á það að Martin fór úr lið á æfingu í síðustu viku eins og kom fram í Morgunblaðinu en KR-ingurinn hristi það af sér og gat spilað leikinn í gær. Kannski var fingurinn að trufla hann aðeins á vítalínunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×