Erlent

Biðlar til Argento að vera „betri“ en Harvey Weinstein

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leikkonurnar Asia Argento og Rose McGowan.
Leikkonurnar Asia Argento og Rose McGowan. Vísir/getty

Bandaríska leikkonan Rose McGowan biðlar til ítölsku leikkonunnar og fyrrverandi vinkonu sinnar Asiu Argento að vera „betri“ en Harvey Weinstein. Argento er sökuð um að hafa beitt ungan leikara kynferðisofbeldi er hann var undir lögaldri. Sjálf sakaði Argento Weinstein um að hafa nauðgað sér seint á tíunda áratugnum.



„Allir geta bætt sig – ég vona að þú getir það líka. Breyttu rétt. Vertu heiðarleg. Vertu sanngjörn. Láttu réttvísina fram ganga. Vertu manneskjan sem þú vildir að Harvey [Weinstein] hefði verið,“ segir í lokaorðum yfirlýsingar McGowan vegna ásakana leikarans Jimmy Bennett á hendur Argento. Yfirlýsinguna má lesa í heild hér.



McGowan og Argento hafa verið í forsvari fyrir #MeToo-hreyfinguna og voru báðar með þeim fyrstu til að stíga fram og saka fyrrverandi kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðisofbeldi. Þær urðu einnig nánar vinkonur í baráttu sinni síðustu mánuði.



Í síðustu viku viðurkenndi Argento að hafa greitt Bennett um 41 milljón íslenskra króna fyrir að þegja um meint kynferðisbrot sem hún að hafa framið gegn honum á hótelherbergi í Kaliforníu árið 2013.

Fyrirsætan Rain Dove og leikkonan Rose McGowan byrjuðu saman fyrr á þessu ári.Vísir/getty

Í yfirlýsingu McGowan kemur fram að Argento hafi sagt McGowan og kærustu hennar, fyrirsætunni Rain Dove, frá málinu er þær dvöldu saman í Berlín skömmu eftir andlát Anthony Bourdain, kærasta Argento.



Þá segir McGowan að smáskilaboð milli Argento og ónefnds vinar hennar, sem TMZ birti í síðustu viku og fjallað var um á Vísi, hafi verið á milli Argento og Dove. Í skilaboðunum segir Argento að Bennett hafi ítrekað sent henni nektarmyndir af sér síðan hann var 12 ára gamall. McGowan gagnrýnir Argento fyrir að hafa ekki tilkynnt um þessar sendingar Bennett. Dove lét lögreglu í Los Angeles síðar fá afrit af samskiptum þeirra Argento.



McGowan var gagnrýnd harðlega fyrir fyrstu yfirlýsingu sína um málið, þar sem hún hvatti fólk til þess að fara blíðum höndum um Argento í kjölfar ásakananna. Argento þvertekur fyrir að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Bennett. Þá hefur lögregla í Los Angeles málið til skoðunar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×