Viðskipti innlent

„Ekki ólíklegt“ að lánaskilmálar brotni

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Snorri Jakobsson, greinandi Capacent, segir vandann í mörgum atvinnugreinum vera ósjálfbær kostnaðaraukning.
Snorri Jakobsson, greinandi Capacent, segir vandann í mörgum atvinnugreinum vera ósjálfbær kostnaðaraukning. Fréttablaðið/Ernir
Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group, segir að ýmislegt hafi farið í gegnum hugann þegar Björgólfur Jóhannsson, forstjóri fyrirtækisins, sagði upp störfum á mánudag. „Annað væri óeðlilegt,“ segir hann spurður hvort hann hafi leitt hugann að því að víkja úr starfi þegar forstjórinn tilkynnti um uppsögn sína á mánudag.

Icelandair Group hefur birt þrjár afkomuviðvaranir það sem af er ári. Á árunum 2012 til 2016 gekk reksturinn vel og náði markaðsvirðið 187 milljörðum króna vorið 2016. Það segir sína sögu að nú er markaðsvirðið tæplega 34 milljarðar króna. Að teknu tilliti til arðgreiðslna nemur lækkunin 76 prósentum. Félaginu hefur ekki auðnast að fleyta kostnaðarhækkunum út í miðaverð eða sníða stakk eftir vexti samhliða aukinni samkeppni frá lággjaldaflugfélögum. Félagið stendur hins vegar fjárhagslega vel og var með 32 prósenta eiginfjárhlutfall við lok júní.

Bogi Nils Bogason, sem sestur er tímabundið í stól forstjóra Ice­landair Group og fjármálastjóri samstæðunnar í áratug, segir aðspurður að ef fram fari sem horfi sé hins vegar „ekki ólíklegt“ að félagið muni brjóta lánaskilmála. „Félagið er fjárhagslega sterkt og með mikinn sveigjanleika í efnahagsreikningi. Við getum unnið mjög auðveldlega úr því ef á þarf að halda.“ Icelandair Group eigi miklar eignir sem séu að langmestu leyti óveðsettar.

Samkvæmt lánakvöðum mega vaxtaberandi skuldir ekki vera meiri en sem nemur 3,5 sinnum hagnaði fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) síðustu tólf mánaða. Vaxtaberandi skuldir voru í lok júní 343 milljónir dala. Áætlað er að skuldirnar verði um 393 milljónir dala í árslok 2018 og ef miðað er við að EBITDA ársins verði 90 milljónir dala, sem er meðaltal afkomuspár stjórnenda, verða skuldirnar tæplega 4,4 sinnum EBITDA.

Stjórnin mun ræða ábyrgðina

Úlfar segir að stjórnin muni þurfa að ræða hver ábyrgð hennar sé. „Stjórnin mun ræða það og ræða við hluthafa.“ Úlfar hefur setið hvað lengst í stjórn Icelandair Group af stjórnarmönnunum eða frá september 2010. Blaðamaður nefnir að umtalsverðar breytingar hafi átt sér stað á undangengnum árum á stjórn félagsins. „Það er alltaf þannig að sá sem er á staðnum þegar illa gengur situr uppi með það. Óháð því hvort það sé hægt að tengja hann við það með einhverjum hætti eða ekki.“

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair.
Að sögn Úlfars mun sá tími sem þarf til að ráða nýjan forstjóra vera nýttur til að vanda valið. „Það þýðir samt ekki að við ætlum að eyða einhverjum mánuðum í verkið. Það liggur ljóst fyrir.“ Hinn 13. ágúst fjárfesti ÚIfar, sem á helmings hlut í Toyota á Íslandi, fyrir 100 milljónir króna í Icelandair Group. Bréfin hafa lækkað um 15 prósent frá kaupunum. „Ég trúi áfram að þetta sé góð fjárfesting,“ segir hann.

Elvar Möller, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka, segir að samhliða því að enn eina ferðina sé félagið að upplýsa markaðinn um að það sé eitthvað í að meðalfargjöld fari að hækka sé það að viðurkenna að vandinn virðist vera dýpri en svo að það séu einungis ytri áhrifaþættir sem það þurfi að kljást við. „Í afkomuviðvöruninni gengst Icelandair við því að hagræðingaraðgerðir hafi ekki gengið nægilega hratt og vel fyrir sig ásamt því að þær breytingar sem gerðar voru á leiðakerfi félagsins í byrjun þessa árs hafi valdið misvægi á milli flugframboðs til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar. Það hafi meðal annars leitt til þess að spálíkön hafi ekki virkað sem leið til lægri tekjuspár.“

Krefjandi að taka við keflinu

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur á hagfræðideild Landsbankans, segir að það verði örugglega krefjandi verkefni fyrir nýjan forstjóra Icelandair Group að taka við keflinu. „Það hefur skapast ákveðin fyrirtækjamenning og fyrirtækið er stórt. Viðkomandi þarf því að taka erfiðar ákvarðanir og mun eflaust rekast á veggi. Nú reynir enn fremur á stjórn Icelandair Group. Hún ræður nýjan forstjóra. Stjórnin velur hvers lags týpu af stjórnanda hún hefur mesta trú á miðað við þær aðstæður sem uppi eru. Þetta verður stór stefnumarkandi ákvörðun.“

Snorri Jakobsson, greinandi hjá Capacent, segir að það hafi verið viðloðandi við íslenskt atvinnulíf að það megi aldrei tala um fílinn í herberginu. „Fyrir hrun mátti ekki fjalla um fjármögnunarvanda og mikla viðskiptavild í bókum félaga. Í dag hefur verið ósjálfbær kostnaðaraukning í mörgum atvinnugreinum. Það skyldi engan furða að það var hrun hér fyrir 10 árum. Spurning hvað við Íslendingar höfum lært á þessum tíu árum,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Þung skref að stíga til hliðar

Fráfarandi forstjóri Icelandair hefur fulla trú á félaginu til lengri tíma litið. Hann segir eðlilegt að í flugrekstri séu uppsveiflur og niðursveiflur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×