Menning

Samfélagsspegill og spé

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Vissulega tekur hann mikið pláss,“ segir Páll um vin sinn Kóp.
"Vissulega tekur hann mikið pláss,“ segir Páll um vin sinn Kóp. Fréttablaðið/Stefán
„Það hefur verið dálítill vandi að skilgreina bókina fyrir fólki, sumir halda að hún sé barnabók og aðrir að hún sé dýrabók. En hún er bara svolítill samfélagsspegill, spjall og spé um daginn og veginn,“ segir Páll Benediktsson, fyrrverandi fréttamaður um nýútkomna bók sína, Kópur, Mjási, Birna & ég. Hvolpurinn Kópur er þar í aðalhlutverki og kemur með innlegg í umræðuna. „Sem fyrrverandi fréttamaður þekki ég að það er gott að geta látið aðra um að hafa skoðanir, sem maður ber þá ekki sjálfur ábyrgð á,“ útskýrir Páll kankvís.

Páll segir kveikjuna að bókinni þá að hann og Birna kona hans hafi verið í Fésbókarhóp með fólki sem fékk hvolpa úr sama goti og Kópur þeirra. „Ég fór að skrifa pistla inn í þessa grúppu um lífið á heimilinu og utan þess og þar hafði Kópur líka rödd. Þetta tómstundagaman mitt óx og ég fékk hvatningu til að gefa efnið út. Upp úr því fór ég að máta það í bók.“

Bókin er ríkulega myndskreytt. „Eins og fram kemur í bókinni tók konan mín aðalábyrgðina á þjálfun Kóps, var með hann á námskeiðum og æfingum,“ segir Páll. „Ég var svona að dingla í kring og hafði svo sem ekkert annað að gera en mynda, bara til að stytta mér stundir.“

Kópur er viðeigandi nafn, eftir myndum að dæma. Labradorhöfuðið líkist dálítið sel. Páll segir Birnu áður hafa átt afbragðshund með Kópsnafninu, svo þau hafi líka verið að koma upp nafni hunds sem var löngu genginn. Hann viðurkennir að Kópur sé stórt númer á heimilinu. „En Mjási, kötturinn sem fyrir var, er samt númer eitt og gerði Kóp strax grein fyrir því. Krakkarnir okkar segja samt stundum að Kópur sé gulldrengur og barnabörnin komist varla að því allt snúist um hundinn. Vissulega tekur hann mikið pláss, er kátur og rosalega skemmtilegur.“

Þótt oftast sé grínið í fyrirrúmi í bókinni er pínu tónn öðru hverju sem ýtir málstað hundaeigenda fram. „Aðstaðan fyrir hunda í borginni er ekki góð, þeir eru borgarar sem hafa verið sniðgengnir. Það eru 5 til 6.000 hundar á höfuðborgarsvæðinu en eiginlega bara þrjú svæði sem þeir mega hlaupa frjálsir um,“ segir hann. Bendir einnig á að aðgengi að veitingastöðum sé takmarkað og að koma með hunda til landsins taki uppundir ár vegna strangra reglna. „Við Kópur vekjum athygli á þessu,“ segir hann. „En reynum að gera það á léttan hátt.“



Brot úr kafla

Fyrsta helgin var viðburðarrík hjá Kóp enda leggur Birna ofuráherslu á að umhverfisvenja hann. Við fórum í margar heimsóknir og ótrúlegur fjöldi fólks kom í heimsókn að skoða litla dúlluhvolpinn. Það margir að ég fór að velta fyrir mér hvers vegna allt liðið hefði ekki komið mánuðum og árum saman til að hitta bara mig? eða Birnu? Eða okkur bæði? Við erum þó nokkrar dúllur líka! Og hvað á ég að gera þegar Kópur verður orðinn stór og óinteressant og fólk hættir að koma? Kaupa annan hvolp? Talandi páfagauk? Eða flóðhest?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×