Erlent

Chemnitz jafnar sig eftir óeirðir öfgamanna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Öfgamenn hópuðust saman í þúsundatali í Chemnitz.
Öfgamenn hópuðust saman í þúsundatali í Chemnitz. Vísir/Getty
Um 6.000 þjóðernishyggjumenn söfnuðust saman í þýsku borginni Chemnitz til að mótmæla á sunnudag. Átök brutust út við gagnmótmælendur og stóðu þau allt þar til í fyrrinótt. Samkvæmt þýska miðlinum Deutsche Welle voru gagnmótmælendurnir, sumir hverjir úr röðum andfasísku hreyfingarinnar Antifa, mun færri eða um þúsund talsins.

Mótmælin spruttu upp eftir að heimamaður var myrtur á laugardagskvöld. Íraki og Sýrlendingur voru handteknir í tengslum við glæpinn á mánudag og kröfðust mótmælendur þess að innflytjendur yfirgæfu Þýskaland, landamærunum yrði lokað. Lögregla greindi frá því að mótmælendur hefðu sést heilsa að nasistasið. Enginn slasaðist þó alvarlega, að sögn lögreglu.

Fulltrúar stærstu stjórnmálaflokka Þýskalands létu ekki sjá sig. Meðlimir Þjóðernishyggjuflokksins AfD héldu sig til að mynda í burtu og þótt Tim Detzner, leiðtogi Die Linke í Chemnitz, hafi skipulagt gagnmótmælin sáust merki flokksins hvergi.

Samkvæmt Deutsche Welle var gærdagurinn rólegur í Chemnitz. Miðillinn tók íbúa tali og sagði einn þeirra, karlmaður á eftirlaunum, að hann óttaðist um orðspor borgarinnar nú sem og „ris nasismans í Þýskalandi“.

Angela Merkel kanslari fordæmdi átökin og sagði að það væri ekki líðandi að taka lögin í eigin hendur.

„Við munum ekki þola slíkar ólöglegar fjöldasamkomur og áreiti gagnvart fólki sem lítur öðruvísi út eða hefur annan bakgrunn,“ sagði upplýsingafulltrúi kanslara í yfirlýsingu í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×