Erlent

Trump sagður vara við ofbeldi á leynilegri upptöku

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þetta væri ekki í fyrsta sinn sem Donald Trump nýtir sér varúðarorð um ofbeldi til að næla sér í atkvæði.
Þetta væri ekki í fyrsta sinn sem Donald Trump nýtir sér varúðarorð um ofbeldi til að næla sér í atkvæði. Vísir/Ap
Donald Trump Bandaríkjaforseti óttast að ef flokkur hans, Repúblikanaflokkurinn, ber ekki sigur úr býtum í komandi þingkosningum megi búast við því að hinn flokkur á bandaríska þinginu, Demókraflokkurinn, muni keyra í gegn breytingar með „offorsi og ofbeldi.“

Þetta er sagt koma fram á leynilegri upptöku sem gerð var á fundi forsetans með kristilegum leiðtogum vestanhafs. Á upptökunni er Trump sagður biðla til leiðtoganna að þeir noti predikunarstóla sína til að hvetja sóknarbörnin á kjörstað í nóvember. „Þið eruð einum kosningum frá því að tapa öllu sem þið hafið,“ er forsetinn sagður hafa sagt trúarleiðtogunum.

Fari svo að repúblikanar missi meirihluta sinn á Bandaríkjaþingi muni demókratar „slaufa öllu á stundinni“ að sögn forsetans - og vísaði þar til fulltrúa Demókrataflokksins í fulltrúadeildinni.

„Þeir munu kollvarpa öllu sem við höfum gert og þeir munu gera það með offorsi og ofbeldi,“ bætti forsetinn við. Því næst vísaði hann til Antifa-hreyfingarinnar, regnhlífahugtaks sem notað er um öfgafullar vinstrihreyfingar vestanhafs, til marks um það hvað andstæðingar repúblikana geti verið ofbeldisfullir.

Hvítir þjóðernissinnar og andstæðingar þeirra, meðal annars meðlmir Antifa-hreyfingarinnar, mættust í Charlottesville í fyrra.Vísir/getty
New York Times segir að nýja upptakan undirstriki hvernig forsetinn notar hótanir um upplausn og ofbeldi til að ýta undir „menningarlega sundrung“ í Bandaríkjunum. Það hafi hann t.a.m. gert eftirminnilega í kjölfar óeirðanna í Charlottesville í fyrra, þar sem þjóðernissinni ók bíl sínum inni í hóp mótmælenda.

Einn lét lífið í árásinni og var forsetinn gagnrýndur fyrir að segja að sökin lægi hjá báðum hópum: Bæði hjá nasistunum sem og þeim sem mótmæltu samkomu þeirra.

Þá sagði hann einnig að búast mætti við óeirðum ef hann hlyti ekki útnefningu repúblikana sem forsetaefni flokksins árið 2016.

Nánar má fræðast um upptökuna í frétt New York Times.


Tengdar fréttir

Tvískinnungur Hvíta hússins varðandi árásir

Þegar Stephen Paddock myrti 58 manns þótti ekki við hæfi að ræða stefnumál en eftir árás múslima í New York heimtar Donald Trump hertar reglur varðandi innflytjendur og byggingu veggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×