Fótbolti

Þjálfarinn fagnaði of mikið og þurfti að fara í aðgerð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eusebio Di Francesco.
Eusebio Di Francesco. Vísir/EPA
Eusebio Di Francesco, knattspyrnustjóri Roma, var aðeins of ánægður þegar lið hans kom til baka á móti Atalanta á mánudagskvöldið.

Roma lenti 3-1 undir eftir aðeins 38 mínútna leik en náði að tryggja sér jafntefli með tveimur mörkum á síðasta hálftímanum.

Jöfnunarmarkið skoraði Konstantinos Manolas á 82. mínútu. Eusebio Di Francesco fagnaði markinu gríðarlega en fagnaðarlætin höfðu sínar afleiðingar.





Eusebio Di Francesco meiddist nefnilega á vinstri hendi þegar hann barði í plexíglerið á varamannaskýlinu. Hann sparkaði líka út í loftið af gleði en slapp við að hitta eitthvað þá.

Höggið hans var fínasti vinstri krókur og fréttir frá Ítalíu er að hann hafi náð þarna að handarbrjóta sig.

Di Francesco mætti með umbúðir á hendinni á blaðamannafund eftir leikinn og var síðan kominn í gifs á næstu æfingu.





„Ég missi mig stundum af því að ég vil sjá meiri einbeitingu,“ sagði Di Francesco eftir leikinn og gagnrýndi sína menn. „Við litum samt eins og áhugamenn þegar við vorum að verjast ellefu á móti ellefu. Svona á ekki að spila,“ sagði Di Francesco.

Eusebio Di Francesco er 48 ára gamall og á sínu öðru tímabili með Roma. Hann kom liðinu alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar í fyrra þar sem Roma sló meðal annars út stórlið Barcelona.

Roma vann fyrsta leikinn 1-0 á móti Torino á útivelli en 3-3 jafntefli við Atalanta var fyrsti heimaleikurinn. Roma liðið mætir svo AC Milan á föstudagskvöldið. Roma er eins og er í fimmta sæti ítölsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×