Björgunarmaðurinn svarar ítrekuðum ásökunum Musks

Vernon Unsworth, björgunarmaðurinn og hellakafarinn sem uppfinningamaðurinn Elon Musk hefur ítrekað kallað barnaníðing, segir að tekið verði á ásökunum Musks á hendur honum. Þetta hefur fréttastofan Sky News eftir Unsworth.
Musk kallaði Unsworth, sem var einn þeirra fyrstu á vettvang við björgun tælensku fótboltastrákanna í sumar, fyrst barnaníðing í júlí. Unsworth hafði þá gagnrýnt Musk fyrir að blanda sér í björgunaraðgerðirnar og sakaði hann um að nýta sér harmleikinn fyrir athygli.
Sjá einnig: Musk heldur því aftur fram að björgunarmaðurinn sé barnaníðingur
Á Twitter í gær ýjaði Musk svo aftur að því að Unsworth væri barnaníðingur er hann spurði Twitter-notanda hvort honum þætti ekki skrýtið að Unsworth hefði ekki lögsótt sig vegna ásakananna. Þegar Twitter-notandinn gaf lítið fyrir þessar vangaveltur uppfinningamannsins spurði Musk ítrekað hvort hann hefði rannsakað málið sjálfur, og ýjaði enn að sekt Unsworth.

Unsworth vildi ekki tjá sig um nýjustu ásakanir Musks að öðru leyti en að verið væri að „taka á málinu,“ að því er Sky News-fréttastofan hefur eftir honum í dag.
Unsworth hótaði að stefna Musk fyrir upphaflegu ummælin í júlí en ekkert varð af því eftir að sá síðarnefndi baðst afsökunar. Þá er vert að nefna að enginn fótur virðist vera fyrir ásökunum Musks.
Tengdar fréttir

Musk heldur því aftur fram að björgunarmaðurinn sé barnaníðingur
Uppfinninga- og tæknijöfurinn Elon Musk virðist enn halda því fram að hellakafari, sem starfaði við björgun tælensku fótboltastrákanna í sumar, sé barnaníðingur.

Musk segist hafa átt erfitt ár
Í viðtali sem New York Times birti dag er Musk sagður hafa helgið og grátið til skiptis á meðan viðtalinu stóð.

Elon Musk svarar björgunarmanninum: „Sorrý barnaperri, þú baðst um þetta“
Breski kafarinn sem gagnrýndi Elon Musk harðlega fyrir kafbát sem hann smíðaði fyrir björgunaraðgerðirnar í Taílandi hefur fengið ansi óvægin svör frá tæknifrumkvöðlinum á Twitter.

Björgunarmaður vandar Musk ekki kveðjurnar: „Hann má stinga kafbátnum sínum þar sem hann verkjar“
Kafarinn, Vern Unsworth, er sagður hafa leikið lykilhlutverk í björgunaraðgerðunum í Tælandi.