Innlent

Segir flugfélögin ekki of stór til að falla

Höskuldur Kári Schram skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að íslensku flugfélögin séu ekki of stór til að falla og að þjóðarbúið sé í góðri stöðu til að mæta hvers konar áföllum. Hann telur þó mikilvægt að hrapa ekki að ályktunum í umræðu um stöðu flugfélaganna.

Staða íslensku flugfélaganna var sérstaklega rædd á fundi peningastefnunefndar í aðdragana vaxtaákvörðunar sem var kynnt í morgun. Seðlabankastjóri segir að bankinn fylgist vel með þróun mála en segir að nefndin leggi ekki sérstakt mat á þjóðhagslegt mikilvægi félaganna.

„Peningastefnunefnd leggur ekki neitt mat á slíkt. Við fylgjumst aðallega með bönkunum sem kerfislæga mikilvægum fyrirtækjum. Mitt mat er það að þau séu ekki endilega of stór til þess að falla það er bara spurning hvernig verður tekið á því og hvað kemur í staðinn og annað því um líkt. Svo skulum við ekkert vera gera því skóna að þau séu að falla, það á bara eftir að koma í ljós,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Wow hyggst sækja sér aukið fjármagn í milljarða skuldabréfaútboði og verð á hlutabréfum í Icelandair hefur hríðfallið í sumar. Á mánudag ákváð Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair að hætta og vildi með því axla ábyrgð á stöðu félagsins eins og sagði í tilkynningu.

Peningastefnunefnd telur að verulega hægi á vexti ferðaþjónustunnar á næstu misserum en Már segir að hagkerfið sé í góðri stöðu til að mæta hvers konar áföllum. Bankakerfið sé sterkt og einnig staða ríkissjóðs.

„Þannig að það er engin ástæða til þó að það geti orðið einhver aðlögun eða einhver fyrirtæki að fara og önnur að koma. Að það séu einhver stórkostleg áföll framundan. það er ekkert sem teiknar upp til þess,“ segir Már. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×