Erlent

FBI segir ekkert til í nýjum staðhæfingum Trump um Clinton

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, sendi frá sér tilkynningu í dag og sagðist ekki hafa fundið vísbendingar um að tölvupóstum hefði verið stolið af Hillary Clinton, þegar hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt því fram í gær.

Trump birti tíst þar sem hann sagði Kínverja hafa brotið sér leið inn í tölvupóstkerfi Hillary Clinton og þeir hefðu komið höndum yfir leynilegar upplýsingar. Hann sagði að FBI og Dómsmálaráðuneytið þyrfti að grípa inn í. Þá gagnrýndi hann stofnanirnar og sagði þær hafa gert mikil mistök. Hann sagði að trúverðugleiki stofnanna yrði enginn ef ekki yrði gripið til aðgerða.

Forsetinn vísaði ekki til sannanna máli sínu til stuðnings. Hins vegar hafði miðillinn Daily Caller birt frétt skömmu áður þar sem því hvar haldið fram að kínverskt fyrirtæki sem starfrækt var í Washington DC hefði brotið sér leið inn í töluvkerfi Clinton. Vitnaði miðillinn í tvo nafnlausa heimildarmenn sem vissu af málinu.



Fjallað var um fréttina á Fox News í gær.

Eins og áður segir sagði talsmaður FBI við Washington Post að engar vísbendingar hefðu fundist um að einhver hefði brotið sér leið inn í kerfi Clinton. Hann vildi ekki tjá sig um kall Trump eftir aðgerðum og talsmaður Dómsmálaráðuneytisins vildi sömuleiðis ekki tjá sig.



Eftir því sem rannsókn Robert Mueller, sérstaks saksóknara Dómsmálaráðuneytisins, hefur ágerst virðist Trump verja meira af tíma sínum í að gagnrýna löggæslustofnanir Bandaríkjanna og eigið Dómsmálaráðuneyti.

Þá hefur vakið athygli að Trump hefur lengi gagnrýnt fréttir sem byggja á nafnlausum heimildarmönnum og gerði það síðast í dag. Þá sagði hann að ef fólk sæi vitnað í slíka heimildarmenn ætti það að hætta að lesa, því fréttin væri ekki sönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×