Enski boltinn

Mourinho eins og lag með Maus: Allt sem þið lesið er lygi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir enga ólgu vera innan síns liðs þótt að ekkert hafi gengið að styrkja liðið áður en félagsskiptaglugginn lokaði í gær.

Manchester United og Leicester City spila opnunarleik tímabilsins á Old Trafford í kvöld en í gær snérist allt um það hvort Mourinho tækist að ná í nýjan miðvörð.

United bauð í Diego Godin hjá Atletico Madrid án árangurs og ekkert varð að því að menn eins og Harry Maguire, Toby Alderweireld, Jerome Boateng eða Yerry Mina kæmu til United.

Jose Mourinho hljómaði eins og lag með Maus þegar hann svaraði spurningum um ólgu og ósætti innan United liðsins.

„Ef lygi er endurtekin þúsund sinnum þá er hún ennþá lygi þótt að fólk sé farið að halda annað,“ sagði Jose Mourinho. Sky Sports segir frá.

„Ef þið endurtakið það þúsund sinnum að samband mitt og leikmanna minna sé slæmt þá er það lygi sem er endurtekin þúsund sinnum en það er samt lygi,“ sagði Mourinho.

„Ég er með leikmenn og ég er ánægður með mína leikmenn. Ég vil vinna með þeim,“ sagði Mourinho.





„Hugmyndir fólks eftir að hafa lesið þetta er kannski öðruvísi en ég er ánægður með mína leikmenn og minn leikmannahóp. Ég naut síðasta tímabils þar sem við vorum með í baráttunni til enda og náðum besta árangri félagsins í fimm eða sex ár,“ sagði Mourinho.

„Ég ætla líka að hafa gaman af þessu tímabili. Í lok nóvember að í desember þá munið þið sjá hvaða lið eru líklegust til að vinna ensku deildina. Það sem er sagt á þessari stundu er því ekki mikilvægt,“ sagði Mourinho.

„Nú skulum við spila fótbolta og sjáum svo til í lok nóvember eða í desember hver staðan er,“ sagði Mourinho.



Leikur Manchester United og Leicester verður sýndur beint á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst útsendingin klukkan 18.50.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×