Erlent

Styttu Steinunnar stolið af bekk í Louisiana

Atli Ísleifsson skrifar
22 styttum Steinunnar Þórarinsdóttur var komið fyrir víðs vegar um miðborg Baton Rouge á síðasta ári.
22 styttum Steinunnar Þórarinsdóttur var komið fyrir víðs vegar um miðborg Baton Rouge á síðasta ári. Fréttablaðið/Andri Marinó
Lögregla í Louisiana í Bandaríkjunum rannsakar nú stuld á styttu íslensku listakonunnar Steinunnar Þórarinsdóttur í höfuðborg ríkisins Baton Rouge.

Styttan var á bekk í miðborg Baton Rouge og var ein 22 sambærilegra stytta sem var hluti af listaverki Steinunnar, Landamæri, eða Borders.

Í frétt WBRZ2 kemur fram að styttan sé rúmlega 180 kíló að þyngd og telur lögregla að henni hafi verið stolið í mars eða apríl fyrr á þessu ári. Fyrst var tekið eftir stuldinum þegar til stóð að flytja verkið til borgarinnar Shreveport, einnig í Louisiana.

Verkinu er ætlað að varpa ljósi á menningarlegan, pólitískan og félagslegan fjölbreytileika.



Haft samband við tökulið myndar Tom Hanks

Eftir að upp komst að styttan væri horfin var haft samband við aðstandendur kvikmyndarinnar Greyhound, sem skartar Tom Hanks í aðalhlutverki, en tökur á myndinni fóru meðal annars fram nálægt bekknum þar sem styttan var og um það leyti sem hún á að hafa horfið. Þeir kváðust þó ekkert vita um hvarf styttunnar.

Yfirvöld í Baton Rouge hafa einnig haft samband við Steinunni sem sögð er hafa miklar áhyggur af stuldinum enda er styttan hluti sýningar hennar. Takist ekki að hafa upp á styttunni þurfa borgaryfirvöld að greiða 60 þúsund dala tryggingu, tæplega 6,5 milljónir króna á núvirði.

Uppsetning verksins var kostuð af einkaaðilum og var ekkert fé sótt í opinbera sjóði borgarinnar, að því er fram kemur í frétt WBRZ2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×