Umfjöllun og viðtöl: Keflavík 0-3 KA | Öruggur sigur KA

Gabríel Sighvatsson skrifar
Úr leik hjá KA.
Úr leik hjá KA. vísir/Bára
Keflavík var enn í leit að sínum fyrsta sigri í Pepsí-deildinni þegar þeir tóku á móti KA frá Akureyri. Leikið var á Nettóvellinum í ágætis veðri.

 

Keflavík byrjaði leikinn af krafti en fékk á sig víti eftir misskilning í vörninni á 22. mínútu. Elfar Árni Aðalsteinsson steig á punktinn og skoraði af öryggi.

 

KA bætti fljótlega við marki þegar Ásgeir Sigurgeirsson komst í góða stöðu og kláraði færi sitt virkilega vel. Eftir þetta var brekkan orðin brött og Keflvíkingar misstu móðinn.

 

Í seinni hálfleik var meiri kraftur í gestunum og þeir bættu við þriðja markinu úr öðru víti. Báðir vítadómarnir voru umdeildir og létu Keflvíkingar í stúkunni og á vellinum vel í sér heyra.

 

Engu að síður kláraði KA þennan leik nokkuð örugglega, lokatölur 3-0. Leit Keflavíkur heldur áfram en þeir hafa ekki náði í eitt einasta stig á heimavelli sínum í sumar og þurfa kraftaverk til að fara ekki beint niður aftur.

 

Af hverju vann KA?

KA menn héldu boltanum vel, sköpuðu betri færi og héldu hreinu. Þeir voru bara betri á öllum sviðum í dag og meginþorrann af leiknum voru þeir betri aðilinn.

Það er ekki mikið hægt að segja annað en að KA hafi átt sigurinn skilið þó svo að vítadómarnir hafi verið umdeildir.

 

Hvað gekk illa?

Vörn Keflavíkur heldur áfram að gefa auðveld mörk. Bæði vítin koma upp úr mistökum Sindra Kristins í markinu sem er búin að gefa ófá vítin í sumar.

Mark Ásgeirs var of auðvelt líka. Vörnin náði engan veginn að stöðva sóknarþunga KA og þeim gekk illa að halda boltanum og búa til almennileg færi. Saga sumarsins hjá Keflavík.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Elfar Árni skoraði tvö mörk, bæði úr vítum. Var sprækur og kláraði vítin vel. Ásgeir Sigurgeirsson fiskaði annað vítið og skoraði sjálfur mark. Vörn KA stóð flest allt af sér og Aron Elí varði allt sem slapp framhjá vörninni.

 

Hvað gerist næst?

KA fjarlægist fallsvæðið en Keflvíkingar eiga litla sem enga von um að enda ekki í neðsta sæti í sumar. Þeir mæta Eyjamönnum í Vestmannaeyjum í næstu umferð í mikilvægum leik en KA tekur á móti KR.

 

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var ánægður með leikinn.

„Ég er mjög ánæðgur með liðið í dag, við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Keflavík er lið sem er á vondum stað núna en þetta eru flottir strákar og framtíðin hjá þeim er björt. Við komum vel stemmdir inn í leikinn og skorum mark á réttum tíma og þetta var aldrei spurning. Mér fannst við hafa „kontrol“ á leiknum og þetta var spurning um að klára leikinn með þriðja markinu.“

 

Honum fannst lokatölurnar eiga fullan rétt á sér.

„Já, er það ekki bara? Við fengum fleiri færi í fyrri hálfleik til að klára leikinn en í seinni hálfleik gaf Keflavík ekkert eftir og þeir lágu bara vel á okkur. Þeir voru að reyna að skora mark til að gefa þeim smá líf en við stóðumst það og héldum hreinu í dag, í fyrsta sinn á útivelli í sumar og við ætlum að halda þessu áfram.“

 

Tufegdzic eða Túfa eins og hann er oftast kallaður, fannst Pétur Guðmundsson, dómari leiksins dæma leikinn vel en vítin sem KA fékk í leiknum voru umdeild.

 

„Mér fannst bæði vítin vera rétt frá mínu sjónarhorni. En það er bara þannig að maður þarf að treysta dómurunum. Pétur er mjög góður dómari og einn af þeim bestu í sumar.“

 

KA er á góðri siglingu og hafa unnið fjóra af síðustu sex leikjum og geta farið að horfa upp á við í deildinni.

 

„Við gerðum jafntefli á móti FH seinast en undanfarnar vikur eru búnar að vera mjög flottar hjá okkur og þessi leikur endurspeglar það að strákarnir eru búnir að æfa mjög vel. Það er mikil stemning í liðinu og mikil trú á verkefnið. Ég er mjög bjartsýnn fyrir framhaldið.“

 

„Þessi deild er bara barátta. Það er hvorki hægt að horfa niður í fallbaráttu eða upp í Evrópubaráttu. Síðustu vikur hafa verið barátta og við ætlum að halda þeirri baráttu áfram og það er bara næsti leikur sem telur. Allir leikir eru hörku 50/50 leikir þannig að þú getur ekki planað neitt fyrirfram.“ sagði Túfa að lokum.

 

 

Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari Keflavíkur, var hundfúll með liðið sitt að leikslokum.

 

„Þetta er mjög svekkjandi að lið geti komið hérna, með fullri virðingu fyrir KA, að þeir geti komið hingað og unnið okkur 3-0 á heimavelli, gjörsamlega óþolandi.“

 

„Þetta er mjög kaflaskiptur leikur hjá okkur. Það eru góðir kaflar hjá okkur, eins og í byrjun þar sem við ætluðum að pressa á þá og reyna að grípa þá í bólinu en svo komu aðrir kaflar þar sem mig langaðir hreinlega bara að láta mig hverfa.“ sagði Eysteinn sem var ekkert að skafa af hlutunum.

 

„Ég verð að segja það alveg eins og er, við vorum alltof langt frá mönnunum, við vorum með hangandi haus, við töpum 9 af hverjum 10 návígjum. Þú munt aldrei eiga möguleika á að vinna fótboltaleik þegar spilamennskan er svona og þetta er algjörlega ömurlegt tap.“

 

„Síðustu tveir leikir hafa verið skref upp á við, hef ekki getað kvartað yfir neinu en í dag var þetta bara mjög lélegt. Við þurfum allir að líta í eigin barm, þjálfararnir og aðrir. Það er eitt að tapa leik en annað að tapa leik svona.“

 

Vítin sem KA fékk í leiknum voru umdeild en Eysteinn vildi ekki tjá sig neitt um þau en gerði athugasemdir við varnarleik liðsins sem hefur verið mjög lélegur í sumar.

 

„Ég ætla ekkert að segja um það, þið kíkið á það sjálfsagt en mér finnst of auðvet að skora á okkur. Lið virðast ekki þurfa mörg færi til að skora á okkur og það er spurning hvort það hafi eitthvað með sjálfstraust að gera. Leikmenn þurfa að spyrja sig hvað er hægt að láta bjóða sér? Ég er kannski of neikvæður, þeir hafa sýnt virkilega flott framlag í síðustu tveim vikum en þetta var langt fyrir neðan okkar getu.“

 

„Það er að duga eða drepast og ef menn átta sig ekki á því, þá þurfa menn að vakna heldur betur. Það er þannig að hvort sem síðasti leikur var góður eða slæmur það hjálpar þér ekkert í næsta leik. Þú mætir bara í hann og við reynum að finna rétta skipulagið þannig að allir geta sýnt sitt besta.“

 

En hvað þarf liðið að gera til að fara að vinna leiki? Svar Eysteins var einfalt.

„Við þurfum að skora og það þarf að vera erfiðara að skora á okkur.“ 

 

 

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira