Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - Stjarnan 0-2 | Dramatík í Árbænum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðmundur Steinn setti tvö mörk undir lok leiksins
Guðmundur Steinn setti tvö mörk undir lok leiksins vísir/daníel
Stjarnan tyllti sér á topp Pepsi deildar karla með 2-0 sigri á Fylki í Árbænum í kvöld. Fylkismenn spiluðu síðustu tuttugu mínúturnar manni færri.

Fylkir var loksins kominn heim í Árbæinn og fór leikurinn fram á glænýju gervigrasi á Floridana vellinum. Heimamenn nutu þess greinilega að vera komir heim og áttu góðan leik í fyrri hálfleik. Þeir náðu að halda aftur af sókndjörfu liði Stjörnunnar og seinni hluta fyrri hálfleiks voru þeir með leikinn nokkurn veginn í höndum sér.

Rúnar Páll Sigmundsson gerði breytingu á liði sínu í hálfleik og hefur líklega lesið aðeins yfir mönnum því Stjörnumenn komu af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn. Fylkir hefur hins vegar náð að þétta raðirnar vel og varnarlína heimamanna réði vel við aðgerðir Stjörnunnar.

Leikurinn breyttist hins vegar þegar Elís Rafn Björnsson fékk beint rautt spjald á 71. mínútu fyrir grófa tæklingu á Guðmund Stein Hafsteinsson. Stjarnan tók þá leikinn yfir og lá á Fylkismönnum. Gestirnir uppskáru á 81. mínútu þegar Guðmundur Steinn skoraði.

Stjörnumenn fengu víti örfáum mínútum seinna en Hilmar Árni Halldórsson, sem hefur verið gríðarlega öruggur á punktinum í allt sumar, skaut framhjá. 

Guðmundur Steinn átti lokaorðið í leiknum með marki í uppbótartíma. Fylkismenn voru brjálaðir og vildu dæmda rangstöðu en markið stóð. Hvort sem hann hafi verið rangstæður eða ekki skiptir þó ekki öllu máli því markið var ekki úrslitamark í leiknum.

Niðurstaðan 2-0 sigur Stjörnunnar sem fer á toppinn á Pepsi deildinni á markatölu. Bæði Blikar og Valur geta komist upp fyrir Stjörnumenn á morgun. Úrslit annara leikja í dag senda Fylkismenn hins vegar aftur í fallsæti vegna lægri markatölu gegn Fjölni.

vísir/daníel
Af hverju vann Stjarnan?

Rauða spjaldið var úrslitavaldur í þessum leik. Það er hægt að halda því fram að úrslitin byggist á fleiri hlutum en staðreyndin er sú að Fylkismenn voru vel inni í leiknum, stóðu vel í Stjörnunni og voru sterkari á köflum, þar til Elís var sendur út af. Varnarleikurinn riðlaðist allur til og Stjarnan náði að nýta sér liðsmuninn.

Hverjir stóðu upp úr?

Innkoma Guðmundar Steins er annað sem réði úrslitunum. Hann skoraði bæði mörkin og „fiskaði“ rauða spjaldið ef svo má að orði komast. Þá var Þórarinn Ingi Valdimarsson sprækur fram á við og stóð sinn varnarleik nokkuð vel eins og svo oft áður.

Hjá Fylki var Ólafur Ingi Skúlason frábær inni á miðjunni, sérstaklega í fyrri hálfleik. Valdimar Þór Ingimundarson átti góða spretti fram á við og hefði átt að koma Fylki yfir rétt áður en Elís fékk rauða spjaldið. 

Hvað gekk illa? 

Stjörnuliðið sem mætti til leiks í fyrri hálfeik var ekki það sem þeir hafa verið að sýna í sumar. Hilmar Árni sást varla á miðjunni og þeir létu Fylkismenn stjórna leiknum. Þeir fundu sig hins vegar aftur í síðari hálfleik.

Þá verður að minnast á að báðum liðum gekk alveg hrikalega illa að nýta sér föst leikatriði, sérstaklega hornspyrnur.

Hvað gerist næst?

Fylkir tekur á móti FH á Floridanavellinum á sunnudag. Næsti leikur Stjörnunnar er eftir aðeins þrjá daga, undanúrslit í bikarnum gegn FH á Samsungvellinum í Garðabæ.

vísir/daníel
Rúnar: Guðmundur Steinn sýndi að hann kann að skora

„Það var ekki gott fyrir þá að fá þetta rautt spjald. Þetta er líka sá leikmaður sem maður á hvað síst von á að fái rautt spjald, hann er ljúfur og prúður drengur. En þetta var gróft brot og réttdæmt rautt spjald. Hvort það hafi verið vendipunkturinn í leiknum? Jújú, sjálfsagt fyrir þá,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, spurður hvort rauða spjaldið hafi ráðið úrslitum í leiknum.

„Það var nú vendipunktur líka að Halli ver frábærlega á einhverjum tímapunkti, svona „match-winner“ markvörslu. Hélt okkur inni í leiknum á þeim tímapunkti. Síðan gerum við smá taktíska breytingu, setum Guðmund inn á. Við vitum að hann er mjög góður þegar við fáum mikið af fyrirgjöfum og er flinkur í því að vera fyrir framan markið. Hann sýndi það og sannaði að hann geti skorað mörk,“ sagði Rúnar sem greinilega var ekki á því að úrslitin væru einfaldlega rauða spjaldinu að þakka.

Rúnar gerði breytingu á sínu liði í hálfeik, tók Jóhann Laxdal út af fyrir Jósef Kristinn Jósefsson, og hans lið kom miklu sterkara inn í seinni hálfleikinn. Hann vildi þó ekki segja að hann hafi haldið neina eldræðu í hálfeiknum.

„Við fórum bara yfir hlutina, hvað við getum gert betur. Jói átti ekki sinn dag í dag og Jobbi er sóknarsinnaður bakvörður. Það var bara taktík í því.“

„Hörkuleikur. Sagði fyrir leik að þetta yrði hörku barátta og leikurinn endaði þannig,“ sagði Rúnar aðspurður hvað honum hafi fundist um leikinn í heild sinni. „Dómarinn hleypti þessu svolítið upp í bál og brand að óþörfu,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson.

vísir/daníel
Helgi: Harður dómur en ætla ekki að segja rangur

„Mér fannst við á þessum tímapunkti sem rauða spjaldið kemur vera ofan á í leiknum. Vorum búnir að fá tvö góð færi og markmaðurinn búinn að verja frábærlega. Það svolítið vippaði leiknum þeirra megin, því miður,“ sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, eftir leikinn.

„Við fengum færi og þeir fengu færi. Þetta var hörku leikur en verður auðvitað erfitt þegar þú ert tuttugu mínútur einum færri. Það gerði okkur erfitt fyrir.“

„Markið sem þeir gerðu á okkur er ég mjög ósáttur við, að þeir fái að komast í gegnum hjarta varnarinnar allt of auðveldlega. Hvort sem við erum 10 eða 11 þar inn á þá eigum við að gera betur þar.“

En var þetta rautt spjald? „Dómarinn dæmir rautt spjald, þá er það rautt spjald. Ég á eftir að sjá þetta, það er oft þannig að liðin sem eru í meira ströggli fá minna með sér. Mér fannst þetta harður dómur en ég ætla ekki að segja rangur því ég hef ekki séð þetta.“

Seinna markið hjá Guðmundi Steini, var það rangstaða? „Það fara tvennar sögur af því sem ég heyri. Ég á líka eftir að sjá það en það skiptir minna máli. Aðalatriðið er hvort hann hafi náð þessu rauða spjaldi rétt.“

„En ég vil helst ekki vera að velta mér of mikið upp úr dómurunum, við höfum ekkert um það að segja hvað þeir gera og þeir gerar sitt besta eins og leikmennirnir,“ sagði Helgi Sigurðsson. 

vísir/daníel
Guðmundur Steinn: Skítsama hvort ég var rangstæður

„Ég held ekki, en mér er alveg skítsama,“ sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson spurður hvort hann hafi verið rangstæður í seinna marki sínu í dag. „Ég reyndi að vera ekki rangstæður og ég held ég hafi ekki verið rangstæður.“

„Virkilega fínt að skora. Okkur vantaði mörk, ég kom inn á og ekkert annað í stöðunni en að prófa að skora.“

Hann var þó ekki sérstaklega ánægður með frammistöðu síns liðs í dag.

„Hálf dapur leikur framan af. Það voru smá læti í þessu líka, en mér fannst við nýta okkur þau rétt. Þeir kannski misstu hausinn við lætin sem komu í lokin en við nýttum okkur þau og sýndum aðeins kaldari haus.“

„Það vantaði herslu muninn hjá okkur framan af leik. Auðvitað kemur meira pláss þegar þeir eru tíu á móti 11 og við náðum að nýta það,“ sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson.

vísir/daníel
Ólafur Ingi: Sárir og svekktir

„Ég held að það sé alveg ljóst,“ svaraði Ólafur Ingi Skúlason, fyrirliði Fylkis, aðspurður hvort rauða spjaldið hafi farið með leikinn. „Við „mötchuðum“ þá 11 á móti 11 og fannst við vera að ná undirtökunum þegar rauða spjaldið kemur og það varð okkur að falli, því miður.“

„Mér fannst við standa í lappirnar og vera sterkir í dag. Við sköpuðum fram á við og þeir áttu líka hálffæri. Þetta var bara mjög jafn leikur í raun og veru þangað til að rauða spjaldið kemur inn og þeir fá þetta mark í kjölfarið.“

„En mér fannst við standa okkur vel í dag og við erum sárir og svekktir að hafa gefið þetta frá okkur.“

Var þetta rautt spjald? „Ég veit það ekki. Ég sá þetta ekki og get eiginlega ekki dæmt um það. Þori ekki að tjá mig um það,“ sagði Ólafur Ingi Skúlason.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira