Erlent

Ár liðið frá dauða Kim Wall: Samfangi réðst á Peter Madsen

Atli Ísleifsson skrifar
Peter Madsen var í apríl dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið.
Peter Madsen var í apríl dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið. Vísir/getty

Samfangi hefur ráðist á Peter Madsen, dæmdan morðingja sænsku blaðakonunnar Kim Wall, í fangelsinu Storstrøm á Falstri. Fréttirnar birtast þegar nákvæmlega ár er liðið frá því að Wall fór um borð í kafbát Madsen og sást í síðasta sinn á lífi.

Danskir og sænskir fjölmiðlar segja frá því að átján ára fangi í Storstrøm hafi beitt samfanga sinn ofbeldi, og hefur lögmaður Madsen nú staðfest að um skjólstæðing sinn hafi verið að ræða.

„Ég hef nýverið rætt við hann og get staðfest að það var hann sem ráðist var á. Honum líður eftir atvikum vel,“ segir lögmaður Madsen, Betina Hald Engmark, í samtali við BT.

Atvikið átti sér stað á miðvikudagskvöldið þegar til átaka kom milli fanganna. Á Madsen að hafa slasast lítillega í andliti og var hann í kjölfarið fluttur á sjúkrahús til skoðunar.

Heiðra minningu Kim Wall

Kim Wall steig um borð í kafbát Madsen að kvöldi 10. ágúst í fyrra. Lík hennar fannst svo niðurbútað í Eyrarsundi.

Dómstóll í Danmörku dæmdi í apríl síðastliðnum Madsen í lífstíðarfangelsi. Madsen er vistaður í Storstrøm-fangelsinu sem er það fangelsi í Danmörku þar sem öryggisgæsla er mest, búið þróuðu eftirlitskerfi og sex metra háum múr umhverfis það.

Kim Wall verður minnst víða um heim í dag þar sem búið er að skipuleggja hlaup þar sem allur hagnaður renna í minningarsjóð um blaðakonuna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×