Golf

Axel og Birgir Leifur í undanúrslit eftir þriðja sigurinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Birgir Leifur og Axel eru óstöðvandi í Skotlandi
Birgir Leifur og Axel eru óstöðvandi í Skotlandi Vísir/Getty
Axel Bóasson og Birgir Leifur Hafþórsson leika til undanúrslita á EM í golfi eftir sigur á Norðmönnum í hreinum úrslitaleik um efsta sæti riðilsins.

Jarand Ekeland Arnoy og Kristian Krogh Johannessen höfðu unnið báða leiki sína í riðlinum til þessa líkt og Axel og Birgir Leifur. Aðeins efsta lið riðilsins komst áfram í undanúrslit og því um hreinan úrslitaleik að ræða.

Leikurinn var nokkuð jafn en Axel og Birgir Leifur voru þó með einnar eða tveggja holu forystu framan af. Eftir að hafa verið jafnir í kringum miðbik hringsins voru Axel og Birgir komnir aftur í eins holu forystu eftir 16. holu, þegar aðeins tvær holur voru eftir.

Jafnt var með liðunum á 17. holu og því áfram eins holu forskot fyrir loka holuna. Axel og Birgir Leifur gerðu sér lítið fyrir og unnu lokaholuna og því leikinn í heild sinni með tveimur holum.

Þeir leika því til undanúrslita á sunnudaginn. Ekki liggur fyrir eins og er hverjum þeir mæta þar.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×