Erlent

Vilja 6ix9ine í fangelsi og á skrá yfir kynferðisafbrotamenn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rappararnir 6ix9ine og Nicki Minaj í myndbandi við nýtt lag þeirra, FEFE. Minaj hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir að vinna með 6ix9ine.
Rappararnir 6ix9ine og Nicki Minaj í myndbandi við nýtt lag þeirra, FEFE. Minaj hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir að vinna með 6ix9ine. Skjáskot/Youtube
Rapparinn 6ix9ine á nú yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi fyrir líkamsárás og kynferðislega misnotkun á barni.

Árið 2015 lýsti rapparinn, réttu nafni Daniel Hernandes, sig sekan um að hafa „notfært sér barn í kynferðislegu athæfi“ eftir að myndbönd, sem sýndu hann og fleiri menn brjóta kynferðislega á 13 ára stúlku, komust í dreifingu. Þá samþykkti hann að brjóta ekki af sér innan tveggja ára frá dómnum gegn því að verða ekki skráður sem kynferðisafbrotamaður.

6ix9ine hefur nú verið kærður fyrir líkamsárás en hann var handtekinn í síðasta mánuði fyrir að hafa tekið ungling kverkataki í verslunarmiðstöð í Texas í janúar. Þá var hann einnig handtekinn í maí síðastliðnum fyrir að ráðast á lögreglumann og aka bíl án ökuréttinda.

Saksóknari á Manhattan í New York-borg fer nú fram á að rapparinn verði dæmdur í allt að þriggja ára fangelsi. Þá er einnig farið fram á að hann verði settur á skrá yfir kynferðisafbrotamenn í Bandaríkjunum, að því er BBC hefur upp úr gögnum málsins.

6ix9ine er 22 ára gamall og öðlaðist vinsældir árið 2017 með lagi sínu Gummo. Dæmt verður í máli hans þann 2. október næstkomandi.

 
Just went to court. It was good.

A post shared by FEFE OUT NOW (@6ix9ine) on Jul 16, 2018 at 10:59am PDT


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×