Erlent

Segir Hvíta húsið beita blekkingum um andlegt ástand Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump og Omarosa á meðan allt lék í lyndi. Hún starfaði á samskiptasviði Hvíta hússins þar til hún var rekin
Trump og Omarosa á meðan allt lék í lyndi. Hún starfaði á samskiptasviði Hvíta hússins þar til hún var rekin Vísir/EPA

Starfsmenn Hvíta hússins blekkja bandarísku þjóðina um hversu mikið Donald Trump forseta hefur hnignað andlega. Þetta segir Omarosa Manigault, fyrrverandi starfsmaður Trump, sem fullyrðir að forsetinn eigi erfitt með að vinna úr flóknum upplýsingum.

Omarosa var rekin með látum í fyrra en hún hefur skrifað bók um reynslu sína af Hvíta húsinu sem kemur út í vikunni. Fullyrðingar hennar um að til séu upptökur af Trump segja rasíska hluti vöktu töluverða athygli í vikunni.

Trump kallaði Omarosa „skítseiði“ þegar fréttamenn spurðu hann út í fullyrðinga hennar í gær.

Omarosa var gestur viðtalsþáttarins „Meet the Press“ á NBC-sjónvarpsstöðinni í dag. Þar sakaði hún John Kelly, starfsmannastjóra Hvíta hússins, um að hafa hótað sér þegar hún var rekin. Lét hún þáttarstjórnendum í té upptöku sem hún segir vera af brottrekstrinum, að því er segir í frétt Politico.

Þá sagði hún upptökurnar sýna fram á að fréttir um að hún hafi gengið berserksgang þegar hún var rekin hafi ekki verið á rökum réttar. Orðrómar höfðu verið um að Kelly hefði látið leyniþjónustuna fylgja Omarosu út úr Hvíta húsinu því hún hefði reynt að brjótast inn í hluta þess þar sem Trump býr.

Fullyrti Omarosa að Trump hefði hnignað andlega og að háttsettir embættismenn í Hvíta húsinu reyndu sitt besta til að leyna því fyrir þjóðinni.

„Ég var samsek Hvíta húsinu í að blekkja þessa þjóð. Þeir halda áfram að blekkja þessa þjóð um hversu mikið honum hefur hnignað andlega, hversu erfitt það er fyrir hann að vinna úr flóknum upplýsingum, hvernig hann tekur ekki þátt í sumum mikilvægustu ákvörðunum sem hafa áhrif á landið okkar,“ staðhæfði Omarosa sem kynntist Trump upphaflega sem þátttakandi í raunveruleika þætti hans „Lærlingnum“.


Tengdar fréttir

Omarosa segir Trump vera rasista

Omarosa Manigault Newman, fyrrverandi starfsmaður Hvíta hússins og þar áður keppandi í raunveruleikasjónvarpsþáttum Trump, segir að hann hafi ítrekað notað "N-orðið“ við tökur Apprentice þáttanna og það sé til á upptökum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.