Skoðun

Smitandi hlátur

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Það er óskrifuð regla að stoppa í Walmart þegar lagt er af stað í ferðalag um Bandaríkin á húsbíl. Ég var þar í vikunni. Það tók sinn tíma fyrir afgreiðslukonuna að skanna góssið, enda kerran yfirfull af nauðsynjum og ónauðsynjum. Á meðan náði nokkurra mánaða barn við næsta búðarkassa athygli okkar. Það dillaði sér brosandi á bleiunni einni, sitjandi í innkaupakerru. Við hlógum og dilluðum okkur á móti. Barnið efldist og dillaði sér enn meira, skríkti og hló. Á endanum vorum við öll farin að dilla okkur og hlæja. Líka afgreiðslukonan. Og mamman líka.

Í sömu ferð keypti ég sérblað frá Time um vísindin á bak við hlátur. Þar kom fram að hlátur getur verið mjög smitandi. Svo smitandi að árið 1962 var skólum lokað í Tansaníu vegna hláturskasta. Nemendur fengu svo mikið hláturskast að hláturinn breiddist út til 14 bæja í Afríku. Menn héldu jafnvel að um smitsótt væri að ræða en heilbrigðisstarfsfólk komst að þeirri niðurstöðu að hláturinn væri sálfræðilegs eðlis.

Þegar við hlæjum losna taugaboðefni eins og endorfín sem auka virkni á vellíðunarsvæðum heilans. Bara það að hugsa um að hlæja eykur vellíðan. Hver man ekki eftir að vera í hláturskasti yfir einhverju og muna svo ekki lengur af hverju.

Hláturinn í Walmart var innilegur. Við hófum húsbílaferðina með því að hlæja og dilla okkur. Þökk sé litla barninu í innkaupakerrunni. Það dásamlega er að þótt við getum ekki verið jafn krúttleg og barnið, sérstaklega í bleiu og engu öðru, þá getum við smitað gleði okkar yfir á aðra.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×