Enski boltinn

Naby Keita hefur eignast mjög góðan vin í Liverpool liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naby Keita fagnar marki með Mohamed Salah og Sadio Mane í gær.
Naby Keita fagnar marki með Mohamed Salah og Sadio Mane í gær. Vísir/Getty
Einn af mönnum helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni var án efa nýi maðurinn á miðju Liverpool sem er Gíneamaðurinn Naby Keita.

Naby Keita lék sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni og átti flottan leik þegar Liverpool vann sannfærandi 4-0 sigur á West Ham.

Naby Keita hefur smollið vel inn í leik Liverpool liðsins og leit út fyrir að hafa spilað með nýjum liðsfélögum sínum í langan tíma. Þetta sást strax á undirbúningstímabilinu en stuðningsmenn Liverpool voru kátir að sjá hann spila svona vel í fyrsta úrvalsdeildarleiknum.

Það er einn maður sem á mikið hrós skilið fyrir að hjálpa Naby Keita að koma sér fyrir í Liverpool borg. Naby Keita segir sjálfur frá því í viðtali við heimasíðu Liverpool.

Besti vinur hans í Liverpool liðinu er nefnilega enski framherjinn Daniel Sturridge sem þurfti bara 24 sekúndur til að komast á blað í West Ham leiknum eftir að hafa komið inná sem varamaður undir lokin.

„Ég ber svo mikla virðingu fyrir honum. Við erum búnir að eyða miklum tíma saman undanfarin mánuð. Það hafa allir tekið mér vel og verið vinalegir. Hann er leikmaður með mikla reynslu en er líka mjög góður leikmaður,“ sagði Naby Keita um Daniel Sturridge.

„Eins og fullt af strákum í liðinu þá er hann mjög skemmtilegur en hann hefur líka gefið mér góð ráð um hvernig er best að koma sér fyrir. Hann er líka búinn að vera mjög hvetjandi enda mjög jákvæður og drífandi. Þessi mánuður hefur verið mjög góður og Daniel er frábær náungi,“ sagði Naby Keita.

Það má finna meira af þessu viðtali við Naby Keita með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×